Innlent

Bjóða fólki að láta lýsa sig gjaldþrota

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Heimspekingur segir upplýsingagjöf allt of einhliða.
Heimspekingur segir upplýsingagjöf allt of einhliða. VÍSIR/VALLI
„Þessi leið getur verið skynsamleg og sanngjörn fyrir alla aðila og stundum er hún eina raunhæfa leiðin út úr fjárhagserfiðleikum,“ segir á vefsíðunni www.gjaldþrotaskipti.is sem rekin er af fyrirtækinu Sigma bókhald.

Þjónustuna veita lögmenn og viðskiptafræðingar. Síðan er ætluð fólki í fjárhagserfiðleikum og leiðin sem talað er um er gjaldþrot.

Ása ólafsdóttir
„Þetta er rétt þegar litið er eingöngu til afskrifta skulda, en hvað tekur svo við?“ segir Ása Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem gagnrýnir vefsíðuna. 

„Í gjaldþrotaskiptum felst til dæmis að allar eignir eru seldar til greiðslu skulda, með örfáum undantekningum. Með úrskurð um gjaldþrotaskipti á bakinu getur þó verið erfitt að fá lán hjá banka, t.d. í formi vísakorta eða að komast í gegn um greiðslumat,“ segir Ása og bætir við að þetta geti líka haft áhrif á möguleika til að gera leigusamninga en úrskurður um gjaldþrotaskipti kemur fram á vottorðum frá Lánstrausti. „Það getur því haft afdrifarík og ófyrirsjáanleg áhrif að bú manns sé tekið til gjaldþrotaskipta.“ Ekkert þess efnis kemur fram á vefsíðunni. 

Á síðunni kemur fram að verulegar líkur séu á því, að lögum um gjaldþrotaskipti verði breytt á næstu misserum. „Mögulega verða þeir sem fara í gjaldþrot eftir væntanlega lagabreytingu ekki lausir allra mála tveimur árum frá gjaldþrotaskiptum eins og nú,“ segir á síðunni.

Henry AlexanderHenrysson
„Ég fæ ekki betur séð en að upplýsingagjöf á síðunni sé svo stórkostlega einhliða og takmörkuð að umbjóðandi gæti lent í vandræðum ef allt er þar tekið bókstaflega,“ segir Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og starfsmaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. „Sérstaklega er þessi takmarkaða upplýsingagjöf ámælisverð vegna þess pláss sem nýtt er í að setja tímapressu á fólk.“ 

Henry segir að stóra siðferðilega álitamálið sé hversu lítil umræða fari fram í samfélaginu um hvenær gjaldþrot eru eðlileg niðurstaða og hvenær þau minna fremur á undanskot. „Umræða um gjaldþrot þarf að verða miklu sýnilegri og umfangsmeiri til þess að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir um tilboð eins og þau sem auglýst eru á þessari á heimasíðu.“ 

Guðmundur Ágústsson
„Fullmeðvitaðir um alvarleika gjaldþrots“

„Ef það hefur slæmar afleiðingar fyrir einstakling að verða gjaldþrota er þá ekki enn verra að vera á vanskilaskrá næstu tuttugu árin?“ segir Guðmundur Ágústsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins gjaldþrotaskipti.is. 

Guðmundur segir að vefsíðan sé ekki sett fram sem tæmandi upplýsingasíða um gjaldþrotaskipti og þeir mæli ekki með því að fólk fari í gjaldþrot nema að vel athuguðu máli. 

„Hins vegar er það tilfellið að ákveðinn hópur fólks getur einfaldlega ekki greitt skuldir sínar, hvorki nú, né í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta fólk stendur frammi fyrir því að vera skráð á vanskilaskrá í jafnvel fjölda ára þar sem það getur ekki greitt skuldir sínar. Það fólk fær ekki vísakort né önnur lán í dag. Það fólk getur átt erfitt með að leigja sér íbúð,“ segir Guðmundur.

Reynslan sýnir að skuldir þessa fólks jafnvel tvöfaldist á 4-5 ára fresti vegna áhrifa dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Það er því einhver lausn, þótt vissulega sé það ekki draumalausn, fyrir suma að fara í gjaldþrot þar sem þá fyrnast skuldir þeirra, þ.e. þær skuldir sem fólkið gat ekki og getur ekki greitt hvort eð er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×