Erlent

Bjóða borpalla fyrir flóttafólk

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íbúðapallurinn Floatel Superior er með 440 einsmannsherbergi um borð.
Íbúðapallurinn Floatel Superior er með 440 einsmannsherbergi um borð. Mynd/Westcon.

Eigendur flotpalla, sem notaðir eru í norska olíuiðnaðinum, hafa boðið þarlendum stjórnvöldum að þeir verði nýttir sem gistirými fyrir flóttamenn. Fulltrúi Stavanger-borgar staðfestir í samtali við Stavanger Aftenblad að borpallafyrirtæki hafi látið vita að þau hafi laus gistirými sem megi nýta í þessu skyni.

 

Norsk sveitarfélög búa sig undir að taka á móti allt að 80 þúsund flóttamönnum og hælisleitendum. Til að geta tekið við öllum þessum fjölda velta sveitarfélögin og Útlendingastofnun Noregs nú við hverjum steini til að finna húsrými. Útlendingastofnunin hefur meðal annars óskað tilboða um gistingu um borð í farþegaskipum sem gætu nýst sem fljótandi gistihús fyrir flóttamenn.

 

Borpallafyrirtækin sjá þó ekki fyrir sér að flóttamennirnir verði fluttir út á olíuvinnslusvæði í þyrlum. Þau bjóða gistingu um borð í íbúðapöllum sem bíða verkefnalausir inni á fjörðum eða í og við hafnir Noregs.

 

Talsmaður Útlendingastofnunar segir olíuborpalla eða íbúðapalla ekki til skoðunar, - að svo komnu máli. Það kalli á of flókna og dýra skipulagningu. Að auki séu pallarnir það langt frá þjónustu sveitarfélaganna og neyðarþjónustu að í reynd myndi gisting þar jafngilda frelsisskerðingu. Flóttamennirnir þurfi að geta um frjálst höfuð strokið og farið inn og út og eins og þeir óska. Móttökumiðstöðvar flóttamanna eigi ekki að vera stofnanir heldur valfrjálst húsnæði.

 

Menn geta þó vart kvartað undan aðstöðu um borð. Gistipallurinn Floatel Superior hefur verið nefndur sem dæmi. Þar eru 440 einsmannsherbergi. Hluta þeirra má nýta sem tveggjamannaherbergi en þannig gæti hann hýst allt að 512 manns. Þá eru matsalur og tómstundaaðstaða með líkamsræktarsal um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×