Lífið

Bjó við heimilisofbeldi í sjö ár: „Þögn mín gaf honum frelsi til að meiða mig“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hugrún þjáist af áfallastreituröskun, kvíða og vefjagigt sem á rætur að rekja til streitunnar og álagsins sem hún bjó við. Einnig hafði hún aldrei fengið frið til að vinna úr sorginni við að missa litla drenginn sinn.
Hugrún þjáist af áfallastreituröskun, kvíða og vefjagigt sem á rætur að rekja til streitunnar og álagsins sem hún bjó við. Einnig hafði hún aldrei fengið frið til að vinna úr sorginni við að missa litla drenginn sinn. Mynd/auðunn
Þegar Hugrún Jónsdóttir var 19 ára gömul byrjaði hún í sambandi með strák sem virtist vera fullur sjálfsöryggis, klár og fyndinn. Hálfu ári síðar byrjaði hann að beita hana ofbeldi. Það fór síðan stigvaxandi næstu sjö árin eða þar til hún laumaðist út af heimili þeirra í skjóli nætur með nýfætt barn þeirra. Það var fyrir ellefu árum.

Hugrún er sterk kona, þekkir sjálfa sig vel og tilfinningar sínar, fékk heilbrigt og gott uppeldi í æsku og hefur sterka réttlætiskennd. Hún burðaðist með skömmina sjálf í mörg ár og í skjóli þagnar gat ofbeldismaðurinn brotið hana kerfisbundið niður. Hún segir skömmina og þögnina gera heimilisofbeldi að tabúi í samfélaginu og búa til staðalmyndir um hvernig manneskjur verða fyrir því. Hún vill segja sína sögu til að rjúfa þessa þögn og ögra þeim hugmyndum sem fólk kann að hafa um heimilisofbeldi.

Mörkin máðust burt

„Ef einhver sparkar í bílinn þinn þannig að það sér á honum, þá þegirðu ekki yfir því heldur segir hátt og ákveðið frá því. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi ef einhver sparkar í mann sjálfan? Ég vildi að ég hefði hugsað svona skýrt þessi sjö ár sem ég var beitt ofbeldi en stór hluti af ofbeldinu fólst í að brjóta mig andlega niður þannig að ég hætti að trúa á sjálfa mig og upplifun mína.“

Hugrún er frá Akureyri en flutti til Reykjavíkur til að búa með kærastanum eftir hálfs árs samband. Fljótlega eftir það byrjaði andlega ofbeldið. „Hann átti við ákveðna erfiðleika að stríða frá því í æsku og ég vildi hjálpa honum. Þannig að til að halda friðinn sætti ég mig við að hann fékk sínu framgengt. Áður en ég vissi af var sambandið fast í því formi.“

Andlega ofbeldið fólst í niðurlægingu og skömmum. Hugrún gerði allt vitlaust eða illa. Hann krafðist endalausrar umhyggju, að hún hugsaði fyrst og fremst um hann og hans þarfir. Alveg sama hvað hún reyndi að sýna honum hve mikið hún elskaði hann, þá var það ekki nóg. Hann sýndi henni aftur á móti enga hlýju á móti. Þau höfðu verið saman í tvö ár þegar líkamlega ofbeldið byrjaði.

„Við lentum í enn einu rifrildinu en ég reyndi alltaf að sporna við fótum og láta hann ekki vaða yfir mig. Mörkin mín voru reyndar alltaf að færast lengra og lengra frá því sem telst eðlilegt. Við vorum að rífast og hann segir eitthvað sem gekk algjörlega fram af mér og var svo ljótt að ég sló hann ósjálfrátt utanundir. Í hausnum á mér sá ég þetta fyrir mér eins og í bíómynd. Að hann myndi hrökkva í kút og taka utan um mig og biðja mig afsökunar. En þess í stað sló hann mig til baka. Hann notaði þetta á mig út sambandið, að það var ég sem byrjaði ofbeldið. Hann réttlætti þannig allt sem hann gerði og ég í raun líka.“

Fannst við jafn sek

Upp frá þessu fór hann að beita líkamlegu ofbeldi til að fá stt fram. Þegar hann var ómögulegur og honum leið illa bjó hann til spennu og í kjölfarið rifrildi. Því fylgdi að hann kleip Hugrúnu undir handlegg eða sneri upp á fingur hennar. Eitthvað sem sást lítið eða alls ekki í daglegu lífi, en var engu að síður mjög sársaukafullt. Hugrún fór að gera sér grein fyrir alvöru málsins og ætlaði sér að hætta með honum. En kærastinn náði að sannfæra hana um að þau ættu það skilið frá hvort öðru að reyna að bjarga sambandinu. Eftir að hún samþykkti það festist hún algjörlega í gildrunni og ofbeldið fór stigvaxandi upp frá því.

„Fyrir sjálfri mér og vinkonum mínum sem höfðu áhyggjur af mér þá réttlætti ég þetta með því að honum liði bara svo illa. Ég viðurkenndi að það væri ofbeldi í sambandinu en sagði að við værum jafn sek um það. Að við værum bæði bara klikkuð. Ég leit svo á að við værum svona ástríðufull og miklar skapmanneskjur. Hann náði síðan smátt og smátt að einangra mig frá fjölskyldu minni og vinum. Hann talaði sífellt illa um þau og reyndi að stjórna öllum mínum samskiptum. Ég var ósköp ein í Reykjavík, búin að missa samband við allt og alla.“

Hugrún segir sjö ára þögn sína hafa gefið ofbeldismanninum frelsi til að meiða hana og hennar líf.Mynd/auðunn
Bjó til fáránleg rifrildi 

Hugrún reynir að lýsa persónueinkennum og aðferðum hans við að búa til rifrildi.

„Hann var mikill reglumaður, drakk til dæmis ekki eða neytti vímuefna. Hann var með þrifáráttu á hæsta stigi, það þurfti alltaf allt að vera fullkomið. Við eyddum ábyggilega svona sex tímum á viku í að þrífa fjörutíu fermetra íbúð sem við bjuggum í. Hann var líka mikill rútínumaður og það þurfti alltaf að klára það sem maður byrjaði á. Það var oft sem við borðuðum kvöldmat og horfðum svo á tvo þætti og eina bíómynd áður en við fórum að sofa. Stundum fórum við að rífast á miðju kvöldi og hann réðst á mig. En svo þurfti alltaf að sættast og klára að horfa á myndina sem var í sjónvarpinu áður en við fórum að sofa. Hann vildi alltaf að ég væri í megrun, færi í ræktina og væri nákvæm í bókhaldinu. Mörg rifrildin hófust á því að hann sakaði mig um að hafa stolist til að borða nammi eða að hafa eytt meiri pening en ég mátti. Þau rifrildi enduðu svo á að hann beitti mig einnig líkamlegu ofbeldi.“ 

Missti barn á meðgöngu

Þegar Hugrún varð síðan ólétt versnaði ástandið til muna. Alla meðgönguna beitti hann hana ofbeldi – oft langt fram á nætur – en svo þurfti hún að biðjast nógu sannfærandi afsökunar á hegðun sinni til að þau gætu sæst og klárað að horfa á myndina í sjónvarpinu. Hann sá aldrei neitt að sinni framkomu og baðst aldrei afsökunar eða hafði áhyggjur af því að hún væri þreytt. Hann skorti alla samkennd. 

„Einu sinni boraði hann fingri svo langt upp í nefið á mér að ég fékk blóðnasir. Þá sagði hann að blóðnasir væru bara eðlilegur fylgikvilli á meðgöngu. Á meðgöngunni flúði ég í nokkra daga til mömmu hans og bjó hjá henni. Þetta fór ekkert framhjá henni en hann beitti hana líka ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Þarna vorum við að reyna að laga ástandið. Ástandið á okkur, sko.“ 

Þegar Hugrún var komin 35 vikur á leið enduðu þau í slagsmálum um miðja nótt þar sem hann tók afar harkalega á henni. Næsta dag fann Hugrún engar hreyfingar hjá barninu og þau fóru upp á spítala. Litli drengurinn þeirra var dáinn. Seinna kom í ljós að það voru bæði blóðtappar í naflastreng og barninu sjálfu.

„Það er vitað að högg og stympingar geta valdið blóðtöppum en það var aldrei rannsakað sérstaklega í mínu tilfelli, enda sagði ég ekki frá ofbeldinu. Þetta var versta, ljótasta og erfiðasta upplifunin mín. Ég lá í sjúkrarúminu með drenginn minn í fanginu og ég man að ég hugsaði að ég myndi aldrei fá að sjá augun hans opnast. Hann og mamma hans voru hjá mér og hann fór allt í einu að rífast við mömmu sína og ætlaði að lokum að ráðast á hana. Ég þurfti að stoppa hann og ganga á milli. Hann hleypti ekki einu sinni foreldrum mínum inn til mín því hann var svo ómögulegur. Öll þessi erfiða reynsla snerist eingöngu um hann og hans eigin tilfinningar. Í sorginni eftir þetta fór það svo í taugarnar á honum að ég væri ekki að díla við þetta eins vel og hann, að syrgja „rétt“ eins og hann.“

Fór í ræktina til að fá frið

Hugrún varð fljótt ólétt aftur og enn versnaði ofbeldið. Hann var farinn að taka hana kverkataki og herða að öndunarveginum. Hrinda henni upp að vegg og snúa harkalega upp á handleggi hennar. Hver dagur var fullur kvíða og hræðslu. Hún leitaði tvisvar til Kvennaathvarfsins og reyndi að safna kjarki til að fara frá honum. En hún var orðin svo einangruð að hún vissi varla lengur hvernig henni sjálfri leið – og þar að auki voru hugmyndir hennar um hvað teldist eðlilegt orðnar verulega brenglaðar eftir mikið og langvarandi andlegt ofbeldi. 

„Hann var í þannig vinnu að stundum var hann tvo daga í burtu. Þá slakaði ég á, sleppti þrifunum og gerði eitthvað bara fyrir sjálfa mig. Það var gífurlegt frelsi. Þegar hann var heima naut ég þess líka að sitja í ró í strætó á leiðinni í vinnuna eða fara í ræktina og leggjast bara á teygjudýnurnar og slaka á. Oft sofnaði ég. Á þessum tíma var ég enn svo mikill krakki, enda hafði ég ekki náð að þroskast neitt í okkar sambandi.“

Réðst á mig við brjóstagjöf 

Þau eignast síðan heilbrigða stúlku sem Hugrún sá síðan alveg ein um.

„Ofbeldið varð snarpara og harðara. Einu sinni lá ég uppi í rúmi og var að gefa stelpunni. Hann var að fara að vinna en þar sem honum fannst ég ekki kveðja hann nógu fallega sneri hann við og réðst harkalega aftan að mér. Ég gat ekki notað handlegginn í mánuð á eftir. Nokkrum dögum síðar réðst hann á mig, settist ofan á mig, tók í hárið á mér og barði höfðinu í gólfið aftur og aftur. Þetta varði, að mér fannst, í heila eilífð og ég man að ég hugsaði að ég myndi enda sem grænmeti. Þarna varð ég fyrst hrædd um líf mitt. En við gátum ekki farið að sofa strax að þessu loknu þar sem við vorum að horfa á mynd þegar þetta byrjaði. Þannig að ég sat í sófanum, dofin í hálfu andlitinu og með heiftarlegar blóðnasir. Þá fann ég loksins kjarkinn minn. En það fylgir því mikill ótti að fara frá ofbeldismanninum. Þetta gerist inni á þínu eigin heimili. Þar sem öryggi þitt og skjól á að vera. En þegar ógnin býr innan veggja heimilisins veit maður ekkert hvert maður á að fara.“

Sterku týpurnar lenda líka í þessu

Hugrún laumaðist út eina nóttina á meðan hann svaf, flúði til Akureyrar og fékk inni hjá foreldrum sínum. Á meðan á sambandinu stóð og fyrst á eftir upplifði hún mikla skömm. 

„Ég skammaðist mín fyrir að hafa lent í þessu, ég sem átti að vera svo sterk kona, flott og dugleg. Það getur líka verið erfitt að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér. Þetta kom foreldrum mínum mjög á óvart því ég hef alltaf verið svo ákveðin og vitað hvað ég vil. Og ég sem kem frá svona góðri fjölskyldu. En sálfræðingur útskýrði fyrir mér seinna að það gæti einmitt verið hluti af vandanum. Við fjölskyldan höfðum aldrei þurft að takast á við mikil vandamál og alltaf verið mjög góð samskipti okkar á milli. Hann sagði að það hefði aldrei reynt á mín mörk og ég hefði því aldrei þurft að takast á við fólk sem veður yfir þau. Ég var föst í björgunarhlutverkinu. Sá þennan strák og ætlaði að koma alveg eins og Disney-prinsessa og bjarga honum. Ég held það sé algengara en margur heldur, að sterku týpurnar lendi í þessu og mörkin þeirra séu markvisst máð út.“ 

„Reyndu að treysta honum“

Hugrún segist þó enn trúa á það besta í fólki og þykir henni mjög vænt um þann eiginleika sinn. „En ég hef enga þolinmæði fyrir dramatík og leiðindum og passa mig að raða í kringum mig fólki sem er hreinskilið og með sitt á hreinu. Ég er svo heppin að vera umvafin þannig fólki.“ 

Það eru ellefu ár síðan Hugrún sleit sambandinu en það var ekki þar með sagt að öllu væri lokið. Þegar dóttir þeirra er sjö ára fær hann umgengisrétt í gegn. „Tveir sálfræðingar sem voru meðdómendur í málinu sögðu að ég yrði að reyna að treysta honum, því þótt hann hafi verið svona við mig þá sé ekki víst að hann verði svona við sitt eigið barn. Ég gerði mitt besta þrátt fyrir að vita að hann hafi beitt margar konur ofbeldi í sínu lífi. Í því fólst að ég talaði aldrei illa um föður hennar við hana, né þar sem hún gæti heyrt til. Ég notaði hana heldur ekki gegn honum á nokkurn hátt, heldur gerði ég allt sem ég gat til þess að samskipti þeirra gætu orðið sem eðlilegust. Stelpan fór til hans þriðju hverju helgi í tvö ár. Síðan kom upp atvik sem varð til þess að hún hætti að fara til hans og hann hefur ekki sóst aftur eftir því að hún komi til hans. Ég hef ekki heyrt í honum síðan þá og hann er horfinn af yfirborði jarðar fyrir okkur.“

Rýfur þögnina fyrir sig og aðra 

Hugrún er þó enn að eiga við afleiðingar sambandsins.

„Fyrst á eftir var ég rosalega hátt uppi. Lífið var æði og mér fannst ég geta allt. Ég var einstæð móðir í háskólanum og í vinnu með – og með endalausa orku. En svo fór orkan að minnka og einn daginn þegar ég var að skúra í vinnunni settist ég á stól og einfaldlega brotnaði niður. Ég fékk bara taugaáfall og fannst eins og ég gæti ekki haldið áfram, ég gat ekki einbeitt mér og ég var gjörsamlega búin á því. Mér fannst eins og ég hefði unnið vel úr reynslu minni en ég gerði mér ekki grein fyrir að áfallið var mun meira en ég hélt og það var að koma út líkamlega. Ég var búin að búa við streitu í sjö ár og hafði fengið lítinn svefn allan þann tíma. Ég var alltaf á varðbergi að lesa í svipbrigði og hreyfingar. Öll orkan fór í að velta fyrir mér hvernig skapi hann væri í. Svo tók það að missa barn og eignast annað á mjög skömmum tíma einnig sinn toll sem ég fékk aldrei að vinna úr. Ætli þetta sé ekki ókosturinn við að vera sterk manneskja, maður heldur endalaust áfram.“

Hugrún er nýlega greind með áfallastreituröskun og vefjagigt en vefjagigtin kemur oft upp eftir áföll, slys eða langvarandi streituástand. Hún á erfitt með svefn, þjáist af kvíða og miklu orkuleysi. 

„Ég er hamingjusamlega gift og á þrjú yndisleg börn. Líf mitt er gott. Hausinn á mér er kominn á góðan stað og ég er löngu hætt að taka á mig sök, ábyrgð eða skömm. Það breytir því ekki að langvarandi ofbeldi hefur langvarandi afleiðingar á líf manns en ég reyni eins og ég get að vinna úr því. Þögn mín í sjö ár gaf honum frelsi til að meiða mig og mitt líf. Hann græddi á þögn minni og þöggun samfélagsins. Þess vegna vil ég tala núna, bæði fyrir mig og aðra sem þurfa að rjúfa þögnina.“

RaTaTam: Guðrún Bjarnadóttir, Laufey Elíasdóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir og Guðmundur Ingi Þorvaldsson.MYND/LAUFEY ELÍASDÓTTIR
Rjúfa þögn með því að safna sögum

Leikhópurinn RaTaTam safnar sögum af heimilisofbeldi með viðtölum við þá sem reynslu hafa af ofbeldinu og mun setja upp sýningu byggða á samtölunum í haust.

„Það er ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að opna sig. En það er magnað að segja frá því að flestir sem við höfum talað við hafa ekki sagt neinum frá þessu og eru að opna á þetta í fyrsta skipti,“ segir Guðrún Bjarnadóttir, einn meðlimur leikhópsins. „Við höldum nafnleynd enda ekki allir sem treysta sér til að opna sig fyrir allri þjóðinni. En þetta er ein leið til að rjúfa þögnina.“

Þeir sem vilja deila reynslu sinni geta haft samband í gegnum netfangið okkarsogur@gmail.com






Fleiri fréttir

Sjá meira


×