Innlent

Bjarni segir unnið að fjármögnun nýs Landspítala

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
"Það er til dæmis ljóst sem öllum varðar að húsnæði Landspítalans er að mörgu leyti úrelt,“ segir Bjarni.
"Það er til dæmis ljóst sem öllum varðar að húsnæði Landspítalans er að mörgu leyti úrelt,“ segir Bjarni. Vísir/Pjetur/GVA
Það er öllum ljóst að húsnæði Landspítalans er að mörgu leyti úrelt og svarar ekki kröfum nútímans en unnið er að áætlun um fjármögnun nýs Landspítala. Þetta kom fram í ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi flokksins í morgun.

Bjarni kom víða við í ræðu sinni. Hann sagði ríkisstjórnina hafa náð einstæðum árangri í efnahagsmálum, verðbólga væri lág, atvinnuleysi lítið og skuldasöfnun ríkisins hafi verið stöðvuð. Hann sagði gjaldeyrishöftin valda ómældu tjóni fyrir íslenskt efnahagslíf en sagði að von væri á tíðindum um afnám þeirra.

„Eftir því sem þessari vinnu vindur fram, þá get ég sagt ykkur það sem ég stend hér, að ég hef aldrei verið jafn sannfærður eins og í dag um að við munum ná markverðum árangri á næstu mánuðum í þessum málum,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði ríkisstjórnina hafa forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og muni halda því áfram. Íslenska heilbrigðiskerfið væri með því besta sem til er í heiminum, en alltaf megi gera betur.

„Það er til dæmis ljóst sem öllum varðar að húsnæði Landspítalans er að mörgu leyti úrelt,“ sagði hann. „Það er ekki miðað við þarfir nútímalæknisþjónustu og húsnæðiskostnaðurinn beinlínis stendur í vegi ákveðinnar hagræðingar sem þarf að ná fram í rekstrinum og bættri þjónustu.

Það er af þeirri ástæðu sem við vinnum nú í ríkisstjórninni að áætlun um uppbyggingu og fjármögnun, sem rúmast innan  ramma ríkisfjármálaáætlunar til næstu ára.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×