Innlent

Bjarni Benediktsson: Ekki upphafið að endalokum ESB en áherslur samvinnunnar munu breytast

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vísir/Anton Brink
Bjarni Benediktsson fjármála-og efnahagsráðherra telur að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu muni hafa lítil áhrif hér á Íslandi til skamms tíma. Til lengri tíma þurfi Ísland hins vegar nýtt form fyrir samstarf sitt við Bretland. Þá telur hann útgöngu Breta ekki upphafið að endalokum ESB heldur muni áherslurnar í Evrópusamvinnunni breytast.

„Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að það geti mjög góðir hlutir komið út úr því fyrir Ísland þar sem Bretland mun hafa mun meira frelsi til þess að semja á sínum forsendum við ríki eins og Ísland án allra málamiðlana við Evrópusambandsríkin,“ segir Bjarni í samtali við Vísi.

Óraunhæft að ræða um inngöngu Íslands í ESB

Hann segir að umræða um inngöngu Íslands í ESB sé algjörlega óraunhæf við þær aðstæður sem uppi eru í sambandinu.

„Ég vil þó halda því til haga að það geta komið út úr þessu hlutir sem gætu breytt Evrópusambandinu. Eitt Evrópusamband þar sem allir gangast undir allt er óraunhæf hugmynd. Horfum bara í kringum okkur og hver niðurstaðan er í dag? Hún er svo að við erum með lönd eins og Ísland sem eru þátttakendur í innri markaðinum en hvorki með aðild að Evrópuþinginu né myntsambandinu en þó í Schengen. Svo eru lönd sem eru fullgildir meðlimir í ESB en ekki í myntsambandinu og ekki í Schengen,“ segir Bjarni og bendir á að önnur ríki, og þá sérstaklega þau sem hafa komið síðar inn í sambandið, hafi þurft að kyngja öllum matseðlinum, eins og hann orðar það.

Evrópusamvinnan til endurskoðunar

„Það hefur alltaf bara verið tímaspursmál í mínum huga hvenær leiðtogar Evrópuríkjanna ætluðu að viðurkenna það að Evrópusamvinnan myndi fara eftir mismunandi brautum þar sem menn gætu dálítið valið sér hversu djúpt þeir vildu fara í samstarf við önnur ríki og hversu hratt þeir vildu fara.“

Bjarni segir mikilvægt muna að Bretland er ekki farið úr ESB. Útganga landsins sem tekur talsvert langan tíma, eða um tvö ár, og á þeim tíma mun Bretland láta reyna á nýtt og endurnýjað samstarf við aðildarríkin.

 

„Það má þess vegna segja að Evrópusamvinnan sjálf sé á vissan hátt til ákveðinnar endurskoðunar. Bretland er eitt af kjarnaríkjum Evrópusamvinnunnar og nú liggur fyrir að það vill semja upp á nýtt um samskiptin og leggja áherslu á að hverfa aftur til kjarnans.“

Kjarni Evrópusamvinnunnar ekki verið undir gagnrýni

Að mati Bjarna er þetta ekki upphafið að endalokum Evrópusambandsins.

„Jafnvel hörðustu gagnrýnendur ESB vilja leggja áherslu á samvinnu, frjáls viðskipti, það að tryggja frið, virkja lýðræðið og að efla evrópsk viðskipti. Þessi kjarni Evrópusamvinnunnar hefur ekki verið undir gagnrýni. Þvert á móti held ég að þetta gefi mönnum tilefni til þess að staldra við og spyrja sig hvort það sé ekki kominn tími til að huga að þessu kjarnahlutverki. Ég held að Evrópusamvinnan sé alls ekki að liðast í sundur heldur munu áherslurnar breytast,“ segir Bjarni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×