Innlent

Bjarni Ben er vinsælasti ráðherrann

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarni Benediktsson kemur ágætlega út úr könnun Gallup.
Bjarni Benediktsson kemur ágætlega út úr könnun Gallup. Vísir/GVA
Mest ánægja mælist með störf Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra en þrír af hverjum tíu sem taka afstöðu eru ánægðir með störf hans.

Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallups en ánægja þjóðarinnar með störf ráðherra ríkisstjórnarinnar var könnuð í annað sinn á kjörtímabilinu.

Rúmlega 26% þeirra sem taka afstöðu eru ánægðir með störf Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra, ríflega fjórðungur er ánægður með störf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra og um 24% með störf Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Um 22% eru ánægð með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra, ríflega 21% með störf Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra og rúmlega 19% eru ánægð með störf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.

Tæplega 19% þeirra sem tóku afstöðu voru ánægð með störf Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra, en hún hefur nú látið af embætti eins og kunnugt er, og rúmlega 18% eru ánægð með störf Sigmundar Davíðs sem dómsmálaráðherra.

Loks eru tæplega 17% ánægð með störf Sigurðar Inga Jóhannssonar, bæði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sem umhverfis- og auðlindaráðherra.

mynd/gallup
Mest óánægja mældist með störf Hönnu Birnu en ríflega 67% voru óánægð með störf hennar. Ríflega 63% eru óánægð með störf Sigurðar Inga sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tæplega 62% eru óánægð með störf Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra og nær 58% með störf Sigurðar Inga sem umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hátt í 57% eru óánægð með störf Gunnars Braga, nær 56% með störf Bjarna og Kristjáns Þórs, og rúmlega 54% með störf Illuga og með störf Sigmundar Davíðs sem dómsmálaráðherra. Loks eru tæplega 43% óánægð með störf Ragnheiðar Elínar og rúm 39% með störf Eyglóar.

mynd/gallup
Mestar breytingar frá mælingu sem gerð var í apríl á þessu ári eru þær að ánægja með störf Kristjáns Þórs heilbrigðisráðherra minnkar um 11 prósentustig og óánægja eykst um 14 prósentustig, og óánægja með störf Hönnu Birnu þáverandi innanríkisráðherra jókst um 15 prósentustig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×