Íslenski boltinn

Bjarni: Las ekki viðtölin við Gary

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR. Vísir/Stefán
Gary Martin, sóknarmaður KR, ítrekaði óánægju sína með stöðu sína innan liðsins eftir lokaumferðina í Pepsi-deild karla um helgina. Hann sagðist þó ekki vita betur en að hann yrði áfram leikmaður KR.

Martin gerði nýjan samning við KR fyrir tímabilið og er hann samningsbundinn liðinu í tvö ár til viðbótar.

„Ég er vonsvikinn með að hafa bara byrjað átta leiki í sumar. Ég myndi byrja meira en átta leiki í öllum liðum deildarinnar, meira að segja FH. Ég er vonsvikinn með að hafa fengið svona fá tækifæri í byrjunarliðinu,“ sagði hann í viðtali við Vísi á laugardag.

Sjá einnig: Gary Martin: Væri byrjunarliðsmaður í öllum hinum liðum deildarinnar

Vísir bar ummælin undir Bjarna Guðjónsson, þjálfara KR, sem reiknar ekki með öðru en að Martin verði áfram í herbúðum félagsins.

„Ég er ekki búinn að lesa viðtölin og öllu jöfnu tjái ég mig ekki um stöðu ákveðinna leikmanna í hópnum,“ sagði Bjarni.

„Það sem ég get sagt um Gary er að hann á tvö ár eftir af samningi sínum og við lítum á hann sem hæfileikaríkan leikmann. Ég sé ekki fyrir mér að hann fari frá KR.“

Martin í leik með KR gegn FH fyrr í sumar.Vísir/Andri Marinó
Martin var í byrjunarliði KR í fyrstu fjórum umferðunum en meiddist svo. Eftir það var hann í byrjunarliðinu í aðeins fjórum deildarleikjum til viðbótar en alls kom hann við sögu í fimmtán deildarleikjum af 22.

„Eins og ég hef margoft sagt þá reynum við að velja besta liðið hverju sinni. Við tökum ákvörðun út frá því hvernig menn standa sig á æfingum í vikunni fyrir leiki og fleira slíkt,“ sagði Bjarni.

„Í augnablikinu er ég leikmaður KR en í næstu viku gæti ég verið seldur, ég veit það ekki,“ sagði Martin í áðurnefndu viðtali en KR hafnaði til að mynda tilboði frá Breiðabliki fyrr í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×