Innlent

Bjarnarkló lýst ágeng planta í Mosfellsbæ

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eitruð risahvönn sem getur valdið gríðarlegum útbrotum. Á myndinni er bjarnarkló í haustbúningi.
Eitruð risahvönn sem getur valdið gríðarlegum útbrotum. Á myndinni er bjarnarkló í haustbúningi. Fréttablaðið/Stefán
Risahvönnin bjarnarkló verður sett á lista yfir ágengar plöntur í Mosfellsbæ. Umhverfisstjóri og garðyrkjustjóri bæjarins eiga enn fremur að láta útbúa fræðsluefni um einkenni og skaðsemi Bjarnarklóar.

Upphaf málsins má rekja til erindi eins íbúa bæjarins, Magnúsar Guðmundssonar, sem vakti athygli á útbreiðslu Bjarnarklóar við Reykjaveg. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í bæjarstjórn lagði til að bærinn léti „útbúa auglýsingu með mynd af bjarnarkló til að vekja athygli íbúa á skaðsemi og útliti plöntunnar og birta í Mosfellingi og á vef Mosfellsbæjar.“ Sagði fulltrúinn að bjarnarkló væri eitruð og að hana væri að finna á útivistarsvæðum og í þéttbýli í bænum.

„Þrátt fyrir þá jákvæðu viðleitni áhaldahússins að bregðast strax við ábendingum Magnúsar Guðmundssonar hefur útbreiðsla hennar ekki verið kortlögð á heildstæðan hátt, heldur einungis stöku plöntu verið eytt,“ bókaði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar sem vildi að útbreiðsla bjarnarklóar yrði kortlögð og henni eytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×