Handbolti

Bjarki Már: Get ekki verið ánægður með þetta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Filip Taleski sækir að Bjarka Má í kvöld.
Filip Taleski sækir að Bjarka Má í kvöld. Vísir/Getty
Bjarki Már Gunnarsson átti góðan leik fyrir Ísland gegn Makedóníu en það dugði bara til jafnteflis í dag. Úrslitin þýða að Ísland endar í fjórða sæti síns riðils á HM í handbolta og mætir Frökkum í 16-liða úrslitum.

„Þetta var algjör rússibani og ég er ótrúlega svekktur. En við erum komnir áfram í 16-liða úrslitin. Mér finnst samt að við hefðum átt að klára þennan leik. Við hættum að sækja og fórum á tempóið þeirra. Þar eru þeir bara betri,“ sagði Bjarki Már sem átti fínan dag í vörninni.

Hann segir að takturinn hafi ekki verið nógu góður, hvorki í vörn né sókn. „Ég hefði viljað vinna fleiri bolta, það er alveg klárt. Við náðum einhverjum en ég bara get ekki verið ánægður með þessa niðurstöðu.“

Makedónía spilaði oft með aukamann á línu í kvöld og Bjarki segir að það hafi verið „hrikalega gaman“ að takast á við það. „Þetta eru menn í minni þyngd og það er gaman að taka á þeim. Þeir hentu sér mikið í golfið en það var gaman að slást við þá.“

Hann segist vera ágætlega ánægður með sinn þátt. „Ég á eftir að skoða þetta betur, ég er svolítið hátt uppi og get ekki metið það núna.“

Næst mætir Íslandi liði Frakka í Lille en það verður spilað fyrir troðfullri höll þar. „Það verður bara að gaman að spila gegn besta liði í heimi í fullri höll. Við eigum eftir að njóta þess.“


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Makedónía - Ísland 27-27 | Strákarnir köstuðu frá sér sigrinum

Strákarnir okkar munu mæta Frökkum í Lille á laugardag en ekki Norðmönnum í Albertville eftir að hafa kastað frá sér sigri gegn Makedóníu. Algert hrun á lokamínútunum og liðið mátti jafnvel telja sig heppið að hafa sloppið með jafntefli. En liðið er komið áfram og á það var stefnt.

Aron Rafn: Þetta var skítt

Aron Rafn Eðvarðsson átti fína innkomu í íslenska markið gegn Makedóníu en það dugði ekki til.

Lino Cervar: Ég er með sterkt hjarta

Lino Cervar, þjálfari Makedóníu, var sáttur eftir jafntefli á móti Íslandi í Metz á HM í handbolta í kvöld en stigið tryggði Makedóníu þriðja sætið í riðlinum og forðaði þeim frá því að mæta Frökkum í sextán liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×