Erlent

Bjargvætturinn úr frönsku lestinni stunginn í Kaliforníu

Atli Ísleifsson skrifar
Spencer Stone hitti Barack Obama Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í september.
Spencer Stone hitti Barack Obama Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í september. Vísir/AFP
Bandaríski hermaðurinn Spencer Stone, sem rataði í heimsfréttirnar fyrir að hafa verið einn þeirra sem yfirbuguðu byssumann í lest á leið frá París til Amsterdam í ágúst, er alvarlega særður eftir að hafa verið stunginn á bar í borginni Sacramento í Kaliforníu.

NBC greinir frá því að Stone hafi gengist undir aðgerð og ástand hans sé stöðugt. Hann var ítrekað stunginn með hníf á miðvikudagkvöldið.

Hinn 25 ára Stone var sæmdur heiðursorðu af Francois Hollande Frakklandsforseta fyrir hetjudáð sína þar sem hann hafði yfirbugað Ayooub El-Khazaani, 26 ára Marokkómann, vopnuðum Kalashnikov riffli, hníf, handsprengju og sjálfvirkri skammbyssu í lestinni.

El-Khazaani hafði þá byrjað að skjóta að farþegum lestarinnar en þurfti að lúta í gras fyrir Stone og þremur mönnum til viðbótar. Stone var sjálfur stunginn með hníf í átökum sínum við El-Khazaani.


Tengdar fréttir

Hermenn í fríi yfirbuguðu árásarmanninn

Mildi þykir að aðeins þrír særðust í árás vopnaðs manns á franska hraðlest í gær. Bandarískir hermenn í lestinni forðuðu því að ekki fór verr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×