Erlent

Bjargar stúlkum undan rakvélarblaðinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Susan stundar nám á framhaldsskólastigi  í ABC-skólanum. Hún segir menntun hafa gjörbreytt lífi sínu.
Susan stundar nám á framhaldsskólastigi í ABC-skólanum. Hún segir menntun hafa gjörbreytt lífi sínu. vísir/gunnisal
Staða unglingsstúlkna er víða skelfileg og mega fjölmargar búa við sláandi misrétti, nauðungarhjónabönd, mannréttindabrot og mismunun.

Næstu vikuna verða unglingsstúlkur í fátækustu löndum heims í brennidepli í vitundarvakningu frjálsra félagasamtaka í alþjóðastarfi og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Vitundarvakningin kallast Sterkar stelpur – sterk samfélög. Því átakið felur jafnframt í sér hvatningu til allra stúlkna um að standa á rétti sínum og láta rödd sína heyrast, hátt og snjallt.

Menntun veitir bjartari framtíð

Susan Moyaso er ein slík stúlka sem tilheyrir Masai-ættbálknum við rætur fjallsins Kilimanjaro í Kenía. Ættbálkurinn er einn þekktasti þjóðflokkur Afríku vegna sérstakrar menningar, klæðaburðar og fastheldni við gamla lífshætti. Þar eru limlestingar á kynfærum stúlkna enn við lýði, stúlkum er þröngvað í hjónaband frá barnsaldri og afar fáar eiga kost á menntun.

Susan var þó ein af þeim heppnu og fékk pláss á heimavist ABC-skólans áður en hún var gefin eldri karlmanni.

„Skólavist frestar undirbúningi fyrir hjónaband og þar af leiðandi líka kynfæralimlestingum,“ segir Susan. „Því lengri skólaganga, því meiri líkur á að maður sleppi algjörlega við þessi örlög og möguleikarnir á framtíð sem maður fær að hafa áhrif sjálfur á, aukast verulega.“

Susan er hæglát og feimin. Hún lítur undan þegar hún brosir, heldur fyrir munninn og afsakar í sífellu ensku sína. En sögur af baráttu hennar fyrir kynsystur sínar og björgunarleiðöngrum sem hún hefur farið á heimili þeirra passa ekki við þessa hógværð. Henni er lýst sem miklum eldhuga.

„Eftir að ég útskrifaðist úr skóla fann ég að mitt hlutverk í lífinu er að breyta hugsunarhættinum sem ríkir í ættbálknum. Ég á í góðu samstarfi við ABC-skólana þannig að ég get boðið stúlkum sem standa frammi fyrir nauðungarhjónabandi eða limlestingu skólavist. Það er eina leiðin til að koma þeim burt úr aðstæðunum en það þýðir að ég þarf að kljást við foreldrana, sérstaklega feður þeirra, og fá þá til að samþykkja skólavistina. Stundum þarf ég bókstaflega að toga stelpurnar út af heimilinu.“ 

Susan ásamt móður sinni, fyrir utan heimili hennar. Móðirin er fjórða eiginkona föður Susan en hann á samtals 38 börn.
Erfitt að geta ekki hjálpað öllum

Susan eflist þegar líður á samtalið og verður ákveðin í tali og fasi þegar hún talar um björgunarferðir sínar.

„Það eru ekki allir ánægðir með það sem ég er að gera. En ég er ekki hrædd, ekki lengur. Ég fæ heimsóknir daglega frá stúlkum sem biðja mig um að hjálpa sér. Það er ótrúlega sársaukafullt að geta ekki hjálpað öllum og ég þarf að vega og meta aðstæður hverrar og einnar og ákveða í samráði við ABC-skólana hverjar fá pláss í skólanum. Hinar snúa aftur heim í ömurlegar aðstæður. Við hreinlega verðum að fá fleiri pláss fyrir stúlkur í skólana.“ 

Hugarfarsbreyting hjá föður

Susan segist þó finna fyrir stuðningi frá ótrúlegustu stöðum, þar á meðal fjölskyldu sinni, en það hefur ekki alltaf verið svoleiðis. Hún er dóttir fjórðu eiginkonu föður síns og á 37 systkini. Fjölskyldan er afar hefðbundin og fylgir siðum Masai-fólksins. Þannig að fyrst þegar hún hóf baráttu sína snéru elstu bræður hennar við henni bakinu og hættu að tala við hana því þeim fannst hún vanvirða siðina. Í dag hafa þeir mildast í afstöðu sinni og samskiptin eru betri en þeir eru ekki endilega sáttir við starf Susan og vilja sem minnst af því vita.

„Afstaða föður míns, sem er háaldraður og á ekki langt eftir ólifað, hefur aftur á móti gjörbreyst. Hann hefur mýkst með aldrinum og sér betur hversu ósanngjarnt hlutskipti kvennanna í fjölskyldunni er. Ég finn að núna þegar dauðinn nálgast þá vill hann tryggja sem best framtíð okkar stelpnanna og eiginkvennanna. Það að faðir minn hafi áhyggjur af stöðu kvennanna gefur mér von um að hugarfarsbreyting sé ekki langt undan.“

Verið var að undirbúa Mary fyrir vígsluathöfn þar sem skera átti af kynfærum hennar þegar Susan náði að tala foreldra hennar til.vísir/gunnisal
Bjargað á síðustu stundu

Mary Yanoi er þrettán ára stúlka sem átti að giftast 58 ára gömlum manni. Í undirbúningi fyrir brúðkaupið var skipulögð athöfn þar sem átti að skera af kynfærum hennar með rakvélarblaði.

Móðir Mary fékk aftur á móti miklar áhyggjur af dóttur sinni. Hún hefði orðið fjórða eiginkona mannsins og þar af leiðandi mjög neðarlega í virðingarstiganum. Daginn fyrir athöfnina ferðaðist móðirin því um langan veg til að biðja Susan og ABC-skólann um hjálp. Þegar hún kom heim aftur var hún lamin af eiginmanni sínum fyrir að vanvirða fjölskylduna.

Susan fór strax daginn eftir ásamt starfsmönnum ABC-skólans á heimili Mary. Þegar þau komu á staðinn var búið að undirbúa allt í kofanum fyrir skurðinn. En þau ruddust inn og báðu um að fá að tala við foreldrana. Faðirinn varð mjög reiður og ógnandi en Susan gaf ekkert eftir. Hún sagðist geta boðið dóttur hans ókeypis skólavist og uppihald og þannig veitt henni tækifæri á bjartari framtíð.

Mary ásamt föður sínum og einum kennara ABC-skólans.
Faðirinn var aftur á móti í klípu. Hann var búinn að lofa eldri manninum dóttur sinni og heiðurinn var í húfi. Þá hótaði Susan því að fara á lögreglustöðina og kæra hann fyrir lögbrot. Það er nefnilega ólöglegt að limlesta kynfæri stúlkna í Kenía, en lögreglan fylgir því ekki eftir og löggjöfin er því afar máttlaus. Hótunin virkaði þó á föður Mary og Susan tók Mary strax út af heimilinu, burt frá aðstæðum sem hún lét sig aðeins dreyma um að vera bjargað frá. 

Mary fékk pláss í ABC-skólanum í Naíróbí. Blaðamaður hitti Mary þar, aðeins fáeinum dögum eftir að henni var bjargað, en greinilega naut hún sín í náminu. Þetta er falleg, ung stúlka og erfitt að ímynda sér að ef Susan hefði ekki gripið inn í væri hún nú gift kona í sveitinni og framtíð hennar fullkomlega fyrirsjáanleg – án þess að hún hefði nokkur áhrif þar á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×