Lífið

Bjargaði hryggbrotnum hundi í Taílandi og flutti hann til Kanada

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Eftir fimm mánaða ferðalög, dýralæknismeðferðir og hópfjármögnun er fatlaði taílenski hundurinn Leo kominn í gott atlæti í Kanada. Saga Leo hefur vakið talsverða athygli víða um heim en hann er hryggbrotinn.

Þetta er röntgenmynd af Leo.
Meagan Penman var á ferðalagi í Taílandi þegar hún rakst á Leo á strönd þar sem hann dró sig áfram á framlöppunum. Hún leitaði til dýraathvarfa í grennd við ströndina til að reyna að koma honum fyrir í öruggum höndum en ekkert athvarf vildi taka við honum.

Þegar Penman var komin heim tók hún þá ákvörðun að Leo væri líklega best komið í Kanada. Hún byrjaði í kjölfarið að safna fé á hópfjármögnunarsíðunni Gofundmen fyrir dýralæknis- og ferðakostnaði. 

„Hann var í hræðilegu ástandi, hann hefði verið dauður á innan við mánuði hefðum við ekki flutt hann,“ skrifaði Penman á myndasíðuna Imgur. „Ég gat ekki fundið neinn til að hugsa um hann í Taílandi svo ég tók hann með mér til Kanada.“

Leo kemst nú óhindrað ferða sinna.
Söfnunin gekk vel og hálfum mánuði eftir að hún hófst var Penman komin aftur til Taílands þar sem hún hafði uppi á hundinum. Hún hélt á honum á dýralæknastofu þar sem hann var settur í röntgenmyndatöku. Það var þá sem í ljós kom að hryggur hans var brotinn.

Söfnunin skilaði samtals 7.000 dölum, jafnvirði 860 þúsund króna, og dugði það til að borga fyrir þriggja mánaða meðferð hjá dýralækni í Taílandi og síðan flutningi til Kanada. Þar var hann settur í fóstur hjá Jamie Smith í Ontario þar sem Penman gat sjálf ekki sinnt honum sem skildi. 

Fjölmargir hafa lagt Leo lið með fjárframlögum hefur ónefnt fyrirtæki einnig gefið sérstaka græju sem gerir honum kleift að komast um óhindrað. 

Hér fyrir neðan er myndband sem Penman tók þegar hún hitti Leo fyrst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×