Erlent

Birtu myndbönd af lögregluþjónum skjóta svartan mann vegna mótmæla

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælunum í Charlotte.
Frá mótmælunum í Charlotte. Vísir/AFP
Lögreglan í Charlotte í Bandaríkjunum hefur birt myndbönd af því þegar Keith Lamont Scott var skotinn til bana á þriðjudaginn. Lögreglan segir hann hafa verið vopnaðan en fjölskylda hans segir hann hafa haldið á bók. Atvikið hefur leitt til mikilla mótmæla í borginni.

Fjölskylda Scott og mótmælendur höfðu farið fram á að lögreglan myndi birta myndbönd frá vettvangi sem tekin voru upp úr bílum og vestum lögreglunnar.

Sjá einnig: Neyðarástand í Charlotte: Ráðist á fréttamann í beinni útsendingu

Ekkja Scott hafði þegar birt eigin myndband af atvikinu, en þar má heyra lögregluþjóna ítrekað segja Scott að leggja frá sér byssuna. Hún segir hins vegar í myndbandinu að hann sé ekki vopnaður. Lögreglan hafði áður birt myndir af öklahulstri Scott og byssu sem þeir segja hann hafa verið með auk fíkniefna.

Kerr Putney, lögreglustjóri Charlotte, segir að myndbönd lögreglunnar sýni ekki fyrir víst að Scott hafi verið vopnaður en segir að önnur sönnunargögn sýni fram á að svo hafi verið. Hann segir að lögregluþjónar hafi verið á svæðinu á þriðjudaginn til að handtaka Scott og hafi komið auga á fíkniefni og vopn í bíl Scott.

Putney bætir við að Scott, sem var 43 ára gamall, hafi einnig framið glæp sem ekki sé hægt að fara nánar út í að svo stöddu. Engir lögregluþjónar hafa verið ákærðir vegna atviksins en málið er til rannsóknar.

Lögregluþjónn hefur verið ákærður fyrir manndráp í borginni Tulsa í Bandaríkjunum. Þar skaut kona mann sem er sagður hafa neitað að fylgja skipunum lögreglu, en hann var óvopnaður.


Tengdar fréttir

Lögreglumenn sárir í Charlotte mótmælum

Tólf lögreglumenn særðust í mótmælum í fyrrinótt í bænum Charlotte í Norður-Karólínu. Mikill mannfjöldi var að mótmæla lögregluofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×