Fótbolti

Birkir Bjarna: Heppnir að Robben fór af velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason fær hér vítið.
Birkir Bjarnason fær hér vítið. Vísir/Valli
Birkir Bjarnason var maðurinn á bak við sigurmarkið á móti Hollandi á Amsterdam Arena í kvöld en hann fiskaði vítið sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eina mark leiksins úr í upphafi seinni hálfleiks.

„Mér líður mjög vel eins og örugglega allri þjóðinni," sagði Birkir Bjarnason, kátur eftir leikinn.

„Þetta var ekkert auðvelt. Þetta var þungur og stór völlur og maður var mjög fljótt þreyttur. Þeir voru mjög mikið með boltann en við náðum að halda okkar stöðu og slepptum þeim ekkert mikið lausum," sagði Birkir en hvað gerðist þegar hann fiskaði vítið?

„Ég fékk boltann fyrir utan teig og ákvað síðan bara að taka varnarmanninn á. Ég ætlaði fyrst að skjóta en beið svo aðeins. Það var gott að sjá hann fara niður því þá gat ég bara farið niður," sagði Birkir.

Hvernig leið honum þegar Gylfi Þór Sigurðsson hljóp að boltanum í vítaspyrnunni?

„Ég hafði alveg trú á honum og vissi að hann myndi skora. Mig langaði svo að sjá boltann fara inn og var því auðvitað svolítið stressaður," sagði Birkir.

„Þetta eru auðvitað smá sárabætur fyrir það að hafa misst af Meistaradeildinni með Basel þó að maður vildi náttúrulega vera þar líka. Þetta eru frábær stig fyrir okkur," sagði Birkir. Eitt stig í síðustu þremur leikjunum nægir nú Íslandi til að komast á EM.

„Við megum ekki hugsa um að okkur vanti bara eitt stig. Við þurfum að fara í næsta leik og ná í þrjú stig. Við getum ekki farið heim til að reyna að spila upp á eitt stig á móti Kasakstan. Við ætlum bara að vinna leikinn," sagði Birkir.

„Þeir byrjuðu leikinn af mjög miklum krafti og þá sérstaklega Arjen Robben. Við vorum svolítið heppnir að hann fór útaf. Hann var sprækur og var að komast inn og ná að skjóta," sagði Birkir en fyrirliði Hollendinga, Arjen Robben, fór meiddur af velli eftir 25 mínútna leik.


Tengdar fréttir

Lars: Það er svo auðvelt að vinna með þessum strákum

Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins, var vissulega brosmildur eftir sigurinn á Hollandi í undankeppni EM í kvöld en þessi reyndi Svíi tók stærsta einum sigri Íslands frá upphafi á fótboltavellinum samt með sínu þjóðþekkta jafnaðargeði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×