Fótbolti

Birkir: Tyrkir sköpuðu sér varla færi í kvöld

Kristinn Páll Teitsson frá Laugardalsvelli skrifar
Birkir fékk ódýrt gult spjald fyrir þetta brot í fyrri hálfleik.
Birkir fékk ódýrt gult spjald fyrir þetta brot í fyrri hálfleik. Vísir/Ernir
„Þetta var mun betra, okkur gekk vel að halda boltanum og spilamennskan í fyrri hálfleik var hreint út sagt frábær,“ sagði Birkir Bjarnason, miðjumaður íslenska landsliðsins, sáttur að leikslokum eftir 2-0 sigur á Tyrkjum í kvöld.

Íslenska liðið nældi í fullt hús stiga í landsleikjahlénu en spilamennskan var töluvert betri í dag heldur en á móti Finnum á fimmtudaginn.

Sjá einnig:Umfjöllun: Ísland - Tyrkland 2-0 | Strákarnir hver öðrum betri í sannfærandi sigri

„Í seinni hálfleik þurftum við að verjast aðeins meira en við vorum bara skynsamir með 2-0 forskot og hleyptum þeim aldrei aftur inn í leikinn,“ sagði Birkir og bætti við:

„Við fengum tvö góð mörk með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og við reyndum bara að halda markinu hreinu í seinni hálfleik. Við fengum tækifæri til að bæta við þriðja markinu en það kom ekki að sök því þeir sköpuðu sér varla færi.“

Birkir leysti fyrirliðann Aron Einar Gunnarsson af hólmi í dag en hann stóð vakt sína af prýði og var vinnusemi hans til fyrirmyndar.

„Mér leið mjög vel, ég hef spilað þessa stöðu áður meðal annars með landsliðinu og mér líður mjög vel inn á miðjunni. Ég er tilbúinn að leysa af í öllum stöðum á vellinum fyrir landsliðið.“

Birkir var ósáttur með gult spjald sem hann fékk í fyrri hálfleik fyrir er virtist vera litlar sakir.

„Dómarinn sagði mér að þetta væri uppsafnað. Þetta var brot en hann sagði að ég væri búinn að vinna mér þetta inn þótt mér þætti þetta ekki vera alvarlegt brot,“ sagði Birkir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×