Innlent

Birgitta upplýsti um þreifingar formannanna á Facebook

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar segir á Facebook-síðu sinni að hún hafi verið boðuð á fund formanna þingflokkanna og þar hafi komið fram að flokkarnir hafi náð samkomulagi um afgreiðslu mála.

Sjálf upplýsir Birgitta á síðu sinni hvað formennirnir semja um. Þar skrifar Birgitta: „Þau eru búin að semja um 40% þröskuld á breytingar á stjórnarskrá, ef mál er umdeilt þurfa um 80% allra á kjörskrá að mæta á kjörfund til að fá ákvæði samþykkt. Ekkert auðlindarákvæði, Bakki verður keyrður í gegn og náttúruverndarlögin verða ekki lögfest fyrr en eftir í fyrsta lagi eftir ár."

Þegar Vísir hafði samband við Birgittu sagði hún að alvarlegasta málið væri að breytingarnar varðandi stjórnarskrána þýddu að hún yrði aldrei samþykkt, enda 80% afar hátt hlutfall. Þannig kusu um helmingur þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána síðast.

Hún segir líka Vinstri græna fá sitt, sem er stóriðja á Bakka, eins og Steingrímur J. Sigfússon lofaði á sínum tíma. „Nú verður bara fundað fram eftir nóttu og málum komið í gegn," segir Birgitta.

Fundurinn formanna þingflokkanna stendur samt enn yfir og því ekki ljóst hvort þetta verði endanleg niðurstaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×