Innlent

Birgitta Jóns „lét sér detta í hug“ að bjóða Vigdísi Hauks á mótmælin

Bjarki Ármannsson skrifar
Vigdís Haukdsóttir segir aðra þingmenn hvetja til mótmæla gegn lýðræðinu á morgun.
Vigdís Haukdsóttir segir aðra þingmenn hvetja til mótmæla gegn lýðræðinu á morgun. Vísir
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er greinilega í hópi þeirra sem finnst það óviðeigandi að mótmæla ríkisstjórninni og aðgerðum hennar á morgun, 17. júní. Hún tjáir sig um málið á Facebook-síðu sinni í kvöld, þar sem hún segist spyrja sig „á hvaða leið“ ákveðnir þingmenn séu. Þá sérstaklega Birgitta Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir, sem Vigdís kallar „tilvonandi forsetaframbjóðanda vinstri manna.“

„Í kvöldfréttum tjáði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og tilvonandi forsetaframbjóðandi vinstrimanna þjóðinni það að henni fyndist allt í lagi að mótmæla á þjóðhátíðardaginn,“ skrifar Vigdís. „Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, dreifir auglýsingu um mótmælin á Austurvelli og lét sér detta í hug að bjóða mér.“

Nærri fjögur þúsund manns hafa boðað komu sína á umrædd mótmæli, sem eiga að hefjast klukkan ellefu í fyrramálið. Yfirskrift þeirra er Ríkisstjórnina burt – vér mótmælum öll en í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði einn skipuleggjenda að dagsetningin hefði sérstaklega verið valin meðal annars með vísun til fæðingardags Jóns Sigurðssonar stjórnmálamanns.

Vigdís er mjög ósátt með þetta, líkt og sumir aðrir framsóknarmenn.

„Ég er orðlaus,“ skrifar hún. „Þingmenn hvetja til mótmæla gegn lýðræðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×