Innlent

Birgitta fjarlægði bloggfærslu: Finnst athyglin viðbrigði

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar. Mynd/GVA

"Ég tók hana út því ég ætlaði aðeins að skoða þetta betur. Maður vill alls ekki vera að hvetja til þess að fólk sé að fá flensuna," segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar í samtali við fréttastofu.

Hún skrifaði færslu á heimasíðu sína í dag þar sem hún velti fyrir sér kostum þess að smitast af svínaflensunni nú, áður en hún stökkbreytist. Birgitta segist afar áhugasöm um upphlaupið sem orðið hefur vegna flensunnar.

Færsluna fjarlægði hún skömmu síðar, að eigin sögn til að skoða málið betur. Birgitta segist munu birta hana aftur að betur íhuguðu máli.

„Þetta er enginn feluleikur eða neitt svoleiðis, ég vildi bara vinna betur í þessu," segir Birgitta, sem segist ekki hafa fengið skammarpóst eða reiðisímtal frá Landlækni eða neitt slíkt.

Hún segist ekki vilja hvetja neinn til að fá flensuna, en finnist þetta hins vegar áhugaverð pæling. Hún hafi viljað fá með- og mótrök í málinu.

„Mér finnst til dæmis mjög sniðugt hjá foreldrum að láta börn fá hlaupabólu áður en þau kunna að klóra sér," segir Birgitta.

Hún segir athyglina sem bloggi hennar er sýnd mikil viðbrigði frá því sem var áður en hún varð þingkona.

„Maður veigrar sér stundum við að setja inn færslur, því maður fær svo mikil viðbrögð. Hérna áður fyrr gat maður sett inn færslur og enginn pældi í því."

Hún segist hins vegar ánægð með að halda úti bæði bloggi og að vera með Feisbúkksíðu, því það auðveldi henni að vera í sambandi við almenning í landinu og forði henni frá því að einangrast í þinghúsinu.

VIÐBÓT 17:58 - Færslan hefur nú verið endurbirt á bloggi Birgittu, en hana má nálgast hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×