Innlent

Bíó og spil fyrir þá sem standa sig vel

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sunnulækjarskóli á Selfossi
Sunnulækjarskóli á Selfossi
Nemendur í unglingadeild Sunnulækjarskóla á Selfossi fá umbun fyrir fyrir góða mætingu og hegðun nokkrum sinnum á skólaári.

Hermann Örn Kristjánsson, deildarstjóri unglingadeildar, segir að skólinn vilji frekar leggja áherslu á hvatningakerfi en refsingakerfi.

„Þeir nemendur sem fá 9 í mætingaeinkunn og eru með  lítið af neikvæðum skráningum í skráningarkerfinu Mentor fá þessa umbun. Það er mismunandi hversu oft þetta er yfir veturinn, við vorum með þetta þrisvar sinnum í fyrra og stefnum að því að hafa þetta þrisvar sinnum núna. Fjöldi nemenda sem fær umbun eykst síðan yfir veturinn. Nemendur reyna að ná því marki að fækka neikvæðum skráningum og bæta mætingu,“ segir Hermann í samtali við Vísi.

Hann segir misjafnt í hverju umbunin felst í hvert en skólastarfið sé alltaf brotið upp með einhverjum hætti. Það sé oftast þannig að það sé hætt fyrr þann dag sem umbunin er, stundum sé farið í félagsmiðstöðina þar sem er einhver dagskrá, spilastöðvar hafa verið settar upp í skólanum sjálfum og einnig hefur verið farið í bíó.

Aðspurður hvort það sé mikil þörf fyrir þetta því nemendur mæti og hagi sér illa segir hann svo ekki vera.

„Það má auðvitað velta því upp hvenær er þörf fyrir hvatningu, og deila um hvort þetta sé rétta leiðin eða ekki. Við sjáum einfaldlega að þetta virkar og á þeim forsendum höldum við þessu inni,“ segir Hermann.

Þeir nemendur sem fá ekki umbun eru í hefðbundnu skólastarfi. Hermann segir að því miður hafi það aldrei verið svo að allir nemendur deildarinnar hafi fengið umbun.

En eru foreldrar sáttir við fyrirkomulagið?

„Við höfum ekki fengið neinar kvartanir en við fáum auðvitað fyrirspurnir, sérstaklega frá foreldrum nemenda í 8. bekk sem eru nýir í unglingadeild. Við kynnum þetta mjög vel á haustin svo að þetta ætti ekki að koma á óvart,“ segir Hermann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×