Viðskipti innlent

Bindiskyldan tvöfölduð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Arnór Sighvatsson og Már Guðmundsson seðlabankastjórar.
Arnór Sighvatsson og Már Guðmundsson seðlabankastjórar. VÍSIR/VILHELM
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að auka bindiskyldu úr tveimur prósentum í fjögur prósent frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hefst 21. október næstkomandi. Þetta er gert til að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé í umferð í framhaldi af miklum gjaldeyriskaupum bankans að undanförnu og í tengslum við uppgjör slitabúa gömlu bankanna og útboð sem áformað er til að leysa út eða binda aflandskrónur.

Í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi í gærmorgun kom fram að hækkun bindiskyldunnar væri tímabundin. Hún sé ekki til þess fallin að hafa áhrif á aðhald í peningastefnunni. Greining Íslandsbanka telur þó að breyting bindiskyldunnar hafi einhver áhrif til aukins aðhalds, þótt erfitt sé að festa fingur á hversu mikið aðhaldið eykst.

Á fundinum sagði seðlabankastjóri að aflandskrónuútboð sem boðað var þegar aðgerðaáætlun um afnám hafta var kynnt færi ekki fram í október, en yrði haldið öðru hvoru megin við áramót.

Peningastefnunefnd ákvað að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 5,5 prósentum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×