Viðskipti innlent

Binda vonir við íslenska tækni

Freyr Bjarnason skrifar
Elisabet Aspaker í heimsókn hjá Gryllefjord Seafood. Matthías Jónasson, þjónuststjóri Völku, sýnir henni nýja búnaðinn.
Elisabet Aspaker í heimsókn hjá Gryllefjord Seafood. Matthías Jónasson, þjónuststjóri Völku, sýnir henni nýja búnaðinn. Mynd/Aðsend
Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, vonast til þess að ný tækni sem íslenska hátæknifyrirtækið Valka hefur þróað geti orðið veigamikill þáttur í að gera þorskvinnslu í Noregi jafn mikilvæga og vinnslu á laxi þar í landi.

Þetta kom fram í heimsókn ráðherrans til Gryllefjord Seafood og sagt hefur verið frá í norskum fjölmiðlum. Fyrirtækið hefur fest kaup á nýju vinnslukerfi fyrir hvítfisk af Völku, sem var stofnað af Helgi Hjálmarssyni, sem er einnig framkvæmdastjóri.

„Það er ánægjulegt hvað viðbrögðin hafa verið jákvæð og þetta mun hjálpa okkur við markaðsstarfið í Noregi,“ segir Helgi, aðspurður. „Við vorum að stofna dótturfélag í Noregi og þetta mun hjálpa okkur við að byggja það upp.“ Valka var stofnað árið 2003 og hlaut fyrirtækið nýsköpunarverðlaun Íslands í fyrra.

Fiskvinnslukerfið tekur við flökum eftir flökunarvélar og skilar tilbúnum ferskum bitum í sölupakkningar eða inn á lausfrysti. Vélin er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og hefur verið í þróun hjá fyrirtækinu frá 2009. Fyrsta vélin var sett upp í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík.

Gunnar Hólm, framkvæmdastjóri hjá Gryllfjord segir þessa nýju tækni vera byltingu fyrir fiskvinnslu í Noregi. „Við erum sérstaklega ánægð með rekstraröryggið og svo er yfirvigtin innan við 0,5 prósent en á hefðbundnum línum er hún gjarnan 3-5 prósent,“ segir Gunnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×