Formúla 1

Bílskúrinn: Málamyndun hjá Mercedes á Monza?

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Mercedes liðið var frekar kátt með úrslit helgarinnar.
Mercedes liðið var frekar kátt með úrslit helgarinnar. Vísir/Getty
Eftir spennandi keppni þar sem mikið var um fallegan fram úr akstur og lítið um óhöpp er margt sem er þess virði að skoða nánar.

Var Williams liðið betra en Mercedes og voru mistök Nico Rosberg viljandi? Hver komst hraðast í hröðustu keppni ársins og hvað er með Valtteri Bottas? Er Caterham að syngja sitt síðasta?

Þetta eru atriðin sem farið veðrur yfir í Bílskúrnum, léttu hliðinni á Formúlu 1 hér á Vísi.

Massa hafði ekki hraðan sem þurfti til að ögra Mercedes en Bottas kveðst hafa haft hann.Vísir/Getty
Voru Williams betri en Mercedes?

Valtteri Bottas vill að minnsta kosti meina að þetta hafi verið hans besta tækifæri til að skáka Mercedes. Tækifæri sem fór forgörðum strax í ræsingunni. Bottas ræsti af stað í þriðja sæti en féll niður í það ellefta.

Honum tókst þó að vinna sig upp í fjórða sætið með gríðarlega vel útfærðum fram úr akstri. Hann nýtti einna helst fyrstu beygju brautarinnar til þess og tók oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og oftar en þrisvar fram úr í þeirri beygju.

Bottas sagði eftir keppnina að hann teldi að hann hefði getað veitt Mercedes hörku samkeppni ef ræsingin hefði ekki klikkað.

„Þótt ég væri á fullu að taka fram úr á fyrstu 20 hringjunum, þá gat ég haldið sambærilegum hraða og þeir þegar ég komst á auða braut, það verður því eilíf spurning hvað hefði gerst,“ sagði Bottas.

Hvað varðar spurninguna hvort Williams liðið var betra en Mercedes á Monza, þá þarf ekki annað en að horfa á niðurstöðu keppninnar. Nei Williams voru ekki betri en Mercedes. Það getur vel verið að Bottas hafi verið betri á tímabili en eitthvað klikkaði í ræsingunni og olli því að Bottas átti ekki möguleika á að ná Mercedes eftir hana.

Hvað Felipe Massa varðar var keppnin frekar óspennandi, hann var að mestu leyti einn með sjálfum sér. Það er kannski erfitt að segja að það sé óspennandi að komast á verðlaunapall í Formúlu 1 en þó. Hann hefði eflaust viljað hafa meira fjör í kringum sig á brautinni.

Rosberg reynir að lágmarka skaðann. Hann er hér utan brautar og horfir á Hamilton sigla fram úr.Vísir/getty
Skipulögð mistök Rosberg?

Nico Rosberg var á undan Lewis Hamilton þegar Rosberg gerir mistök sem verða til þess að Hamilton nær af honum forystunni. Hamilton hélt henni til loka og vann keppnina.

Vaninn er orðinn sá hjá gárungum að ekkert má henda hjá Mercedes án þess að það sé samsæri. Fyrir einhverjum er allt tímabilið eitt stórt samsæri. Um leið og Rosberg missti Hamilton fram úr sér fyrir þessi grundvallar mistök hófst blástur í samsærislúðra um allan heim.

Meining samsæriskenningasmiðanna er sú að Rosberg hafi gert þessi mistök viljandi til að sætta liðið, nú væri staðan orðin jöfn, áreksturinn í síðustu keppni gleymdur og allir kátir.

Önnur samsæriskenning er sú að Mercedes liðið hafi skipað Rosberg að gera þessi mistök til að minnka neikvæða fjölmiðlaumfjöllun um hann og liðið.

Þriðja kenningin er sú að Rosberg hafi séð að Hamilton væri hraðari. Hann var vissulega hraðari á þessum kafla keppninnar og Rosberg hafi einfaldlega verið hræddur um hvaða aðferðir Hamilton myndi nota til að komast fram úr. Annar angi þessarar kenningar er að Rosberg hafi ekki treyst sér til að aka í návígi við Hamilton, ef ske kynni að þeir rækjust saman.

Öllum þessum kenningum verður hafnað og nú koma rökin. Nico Rosberg hefur viðurkennt að sér hafi orðið hvelft við að sjá Hamilton nálgast svona hratt.

„Lewis vann upp bilið mjög hratt svo ég þurfti að auka hraðan og af því leiddi þessi mistök. Þetta var skelfilega klaufalegt og kostaði mig fyrsta sætið, ég er afar vonsvikinn vegna þessa,“ sagði Rosberg eftir keppnina.

Því verður ekki troðið upp á Rosberg að hann hafi svo lítið keppnisskap að hann sé viljugur til að missa af fyrsta sætinu til að sætta liðsfélaga sinn. Hann er Formúlu 1 ökumaður og eðli þeirra er að vinna og gera allt til að tryggja að þeir vinni.

Hver hefði trúað því að Renault knúni Red Bull bíllinn væri með hærri hámarkshraða en Mercedes bílarnir?Vísir/Getty
Hraðasta braut ársins

Hver komst hraðast á hröðustu braut ársins? Daniel Ricciardo fór hraðast allra í keppninni. Hann náði 362,1 km/klst. Sem er athyglisvert þar sem Red Bull er frægt fyrir að einblína frekar lítið á hámarkshraða. Næstur á eftir honum kom hinn fram úr aksturs glaði Bottas en hann náði 369,8 km/klst. Hamilton varð þriðji á 358,6. Jean-Eric Vergne á Toro Rosso varð fjórði á 357,6.

Athygli vekur að Rosberg er næst hægastur á listanum, hann náði einungis 331 km/klst. Það skýrist þó af því að þegar hann var fremstur gat hann ekki opnað afturvænginn. Svo þegar Hamilton komst fram úr honum stakk Hamilton hann af og Rosberg gat heldur ekki notað afturvænginn. En til þess þarf ökumaður að vera innan við sekúndu fyrir aftann annan ökumann á vissum svæðum brautarinnar.

Vettel átti ekki góðan dag og hefur væntanlega ekki verið sérlega kátur þegar Ricciardo tók fram úr honum.Vísir/Getty
Keppnisáætlun Red Bull manna

Sebastian Vettel kom ansi snemma inn til að skipta um dekk. Fyrir fram var talið ansi líklegt að felstir myndu bara stoppa einu sinni til að skipta um dakk. Sú varð raunin. En Vettel kom gríðarlega snemma inn. Þessi fljótfærni Red Bull liðsins kostaði það að Vettel var nánast farinn að aka um á vírum dekkja sinna undir lok keppninnar. Það var eiginlega ekkert eftir af gripi.

Daniel Ricciardo hins vegar var lengi úti áður en hann tók sitt þjónusuthlé. Hann átti líka allt að því auðvelt með að taka fram úr liðsfélaga sínum undir lokin. Ómögulegt er að segja hvað bjó að baki þessari áætlun Red Bull, ágiskanir eða áhættusækni. Ekki var það skynsemi að minnsta kosti.

Albers er víst ekki sáttur við viðskiptahætti nýrra eiganda Caterham.Vísir/Getty
Christijan Albers hættur hjá Caterham eftir 2 mánuði í starfi

Christijan Albers, fyrrverandi Formúlu 1 ökumaðurinn sem tók við stjórnartaumunum hjá Caterham eftir að Tony Fernandes seldi liðið, hefur sagt starfi sínu lausu. Hann segir að persónulegar ástæður liggi að baki uppsögninni.

„Undanfarna mánuði hef ég helgað allri minni orku því að tryggja að eigandaskipti á liðinu myndu ganga eins mjúklega fyrir sig og hægt var og til að passa að sem best niðurstaða fengist fyrir fjárfestana og styrktaraðilana og allt fólkið sem er tengt Caterham,“ sagði Albers.

„Hluti af þeirri vinnu var að endurskipuleggja liðið, en á sama tíma halda áfram tækniuppfærslum á bílunum. Með þessu höfum við skapað bæði betri grundvöll fyrir framtíð liðsins og náð gríaðrlegum framförum með hraða bílanna,“ hélt hann áfram.

„Vegna persónulegra ástæðna og með það fyrir augum að eyða meiri tíma með fjölskyldu minni, mun ég hætta sem framkvæmdastjóri Caterham. Ég óska liðinu alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Albers að lokum.

Manfredi Ravetto mun taka við starfi hans en hann starfaði áður sem tæknistjóri liðsins.

Sögusagnir herma að raunveruleg ástæða uppsagnar Albers sé ekki beint tengd fjölgun fjölskyldustunda. Hann er sagður hafa viljað gera upp við lánadrottna liðsins til að minnka skuldir þess en fékk víst ekki peninga til þess frá nýjum eigendum. Þá skildu leiðir.


Tengdar fréttir

Lewis Hamilton vann á Monza

Lewis Hamilton vann ítalska kappaksturinn eftir að hafa ræst á ráspól en tapað forystunni í ræsingu. Liðsfélagi hans hjá Mercedes, Nico Rosberg varð annar eftir óheppileg mistök. Felipe Massa á Williams átti rólegan dag en náði í þriðja sætið.

Lewis Hamilton á ráspól á Ítalíu

Lewis Hamilton verður á ráspól á morgun í ítalska kappakstrinum. Liðsfélagi hans hjá Mercedes, Nico Rosberg verður annar og Valtteri Bottas á Williams verður þriðji.

Bílskúrinn: Hverjum var um að kenna í Belgíu?

Belgíski kappaksturinn sem fram fór í gær var fyrir margt athyglisverður. Daniel Ricciardo vann sína þriðju keppni og Kimi Raikkonen náði sínum besta árangri á tímabilinu. Allra augu beinast þó að Mercedes þessa stundina. Hvað er að gerast þar? Verður liðið starfhæft á næstunni?

Ferrari efast um að hægt verði að ná Mercedes 2015

Ferrari liðið hyggst mæta með fullkomlega endurhannaðan bíl til leiks 2015 en efast um að það dugi til að ná Mercedes. Gæði Mercedes vélarinnar séu of mikil til að hægt sé að snúa taflinu við í einu stökki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×