Fótbolti

Bilic: Hefði verið betra fyrir England að mæta Portúgal en Íslandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/epa/vilhelm
Slaven Bilic, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins West Ham United, segir að Portúgal hefði mögulega verið heppilegri andstæðingur fyrir England í 16-liða úrslitum á EM 2016 en Ísland.

Bilic segir í pistli sínum fyrir Dail Mail að hann skilji af hverju Englendingar séu fegnir að mæta Íslandi en það séu ekkert endilega góðar fréttir fyrir enska liðið sem lenti í 2. sæti í B-riðli.

Sjá einnig: KSÍ fékk óvænt sjötíu miða á Englandsleikinn á tuttugu evrur stykkið

„Þið munuð eflaust eftir vandræðunum sem England lenti í að brjóta Slóvakíu niður. Og nú mæta þeir liði Íslands sem er jafnvel enn harðskeyttara. Þeir elska að verjast,“ segir Bilic en Englendingar gerðu markalaust jafntefli við Slóvaka í lokaumferð B-riðils.

„Ég sé þetta þannig: slóvakísku leikmennirnir líta á það sem vinnu að spila vörn. Íslendingar líta á það sem listgrein.“

Bilic segir að Englendingar verði að vera betri í því að brjóta niður lið sem leggjast í vörn gegn þeim.

„Ég veit að þetta hljómar skringilega en það hefði kannski verið betra fyrir England að mæta Portúgal, Króatíu eða Þýskalandi,“ segir Bilic sem hefur slegið í gegn sem álitsgjafi hjá ITV sjónvarpsstöðunni á EM.

„England hefur átt í vandræðum með að brjóta niður sterkar varnir hingað til á EM og þeir verða að finna lausnir á því. Stundum þarftu smá heppni með þér í liði og ef þeir skora fyrsta markið þá gætu fleiri fylgt í kjölfarið.

Sjá einnig: Eiður Smári: Ekki endilega draumurinn að spila við England

„England þarf eitthvað sérstakt, einhverja töfra. Þú þarft að hafa einstaklingshæfileika þegar þú spilar á móti liði sem verst á níu mönnum. Ef ekki þarftu að vera á fullu allan leikinn og vonast til þess að pressan, öll skotin og hornin, skili marki á endanum.

„Þetta verður ekki auðvelt. Það verður mun erfiðara fyrir England að sækja á Ísland en öfugt.“

Leikur Englands og Íslands fer fram í Nice á mánudaginn og hefst klukkan 19:00.


Tengdar fréttir

Næsta brekka reynst of brött fyrir Lars Lagerbäck

Lars Lagerbäck hefur þrisvar í sex tilraunum komið liði upp úr riðli á Evrópumóti eða í heimsmeistarakeppni en hann hefur aldrei farið í gegnum fyrsta leik í útsláttarkeppni. Hann reynir nú í fjórða sinn.

EM í dag: Groundhog day í Annecy

Tómas Þór Þórðarson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson fara yfir allt sem snýr að íslenska liðinu á EM í Frakklandi.

Hlustaðu á öll bestu ummæli Eiðs Smára

Eiður Smári svaraði fjöldamörgum spurningum á blaðmannafundi íslenska liðsins í Annecy í morgun. Hlustaðu á samantekt okkar frá fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×