Erlent

Bildt smyglaði dauðadæmdum blaðamanni frá Afganistan

Atli Ísleifsson skrifar
Carl Bildt lét af embætti utanríkisráðherra Svíþjóðar á síðasta ári eftir átta ár í starfi.
Carl Bildt lét af embætti utanríkisráðherra Svíþjóðar á síðasta ári eftir átta ár í starfi. Vísir/AFP
Carl Bildt, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, smyglaði 25 ára dauðadæmdum karlmanni frá Afganistan árið 2009. Bildt gegndi þá stöðu utanríkisráðherra.

Sænska blaðið Expressen segir að maðurinn hafi stundað nám í Afganistan en einnig starfað sem fréttamaður á afgönsku dagblaði. Maðurinn var færður í einkaflugvél sænskra stjórnvalda á flugvelli í höfuðborginni Kabúl þar sem Bildt beið mannsins. „Það var mjög taugatrekkjandi síðustu mínúturnar. Hættan var að afganskir öryggisverðir myndi sjá og skilja hvað væri á seyði.“

Atvikið átti sér stað í einni af ferðum Bildts til Kabúl, höfuðborgar Afganistans, árið 2009.

Bildt hafði þá margoft tekið upp mál dauðadæmda mannsins í samtölum sínum við Hamid Karzai, þáverandi forseta Afganistans. Þau samtöl höfðu hins vegar ekki skilað neinum árangri.

Fréttamaðurinn starfaði á blaðinu New World og hafði verið dæmdur til dauða eftir að hafa birt gagnrýnar grein um íslam.

Leynileg aðgerð

Bildt skipulagði þessa leynilegu aðgerð í samráði við þáverandi sendiherra Noregs í Stokkhólmi sem var einn af fulltrúum Sameinuðu þjóðanna í Afganistan.

Bildt segir ástæðu þess að aðgerðinni hafi verið haldið leyndri í sex ár hafi verið ótti við pólitískar afleiðingar sem gætu beinst að Svíþjóð, Sameinuðu þjóðunum eða þeim innan afganska stjórnkerfisins sem grunur gæti beinst að því að hafa átt aðild að málinu.

„Nú tel ég að þetta skipti minna máli. Ný stjórn í Afganistan. Nýr fulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Nýr sænskur utanríkisráðherra,“ segir Bildt.

Dauðadæmdi maðurinn var fluttur frá Afganistan til Ósló þar sem tengiliðir voru til staðar. „Nú held ég að hann sé í Bandaríkjunum,“ segir Bildt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×