Erlent

Bikiniklædd lögreglukona á frívakt hafði hendur í hári vasaþjófs

Atli Ísleifsson skrifar
Mikaela Kellner hikaði ekki og hélt þjófnum í grasinu þegar til lögreglumaður á vakt mætti á staðinn
Mikaela Kellner hikaði ekki og hélt þjófnum í grasinu þegar til lögreglumaður á vakt mætti á staðinn Mynd/Instagram
Sænska lögreglukonan Mikaela Kellner hafði hendur í hári vasaþjófs þegar hún var í sólbaði með vinkonum sínum í almenningsgarði í Stokkhólmi á frívakt sinni síðastliðinn á miðvikudaginn.

„Ég hikaði ekki. Hefði ég verið nakin hefði ég líka gripið inn í. Það er ekkert sem stöðvar mig. Það var samt frekar skondið að ég náði honum klædd í einungis bikiníi,“ segir Kellner í samtali við Aftonbladet sem hægt er að hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.

Kellner birti mynd af atvikinu á Instagram-reikningi sínum og hefur henni verið sérstaklega hrósað fyrir viðbrögð sín. „Ég er himinlifandi að hafa birt myndina og hafa margir haft samband sem hafa lent í slíklum glæpamönnum. Tilgangurinn var að benda á hve auðvelt er að verða rændur.“

Kellner segir að maður hafi komið upp að þeim vinkonum til að selja dagblöð og hafi hún strax tekið eftir að hann hafi litið í kringum sig líkt og hann væri að leita að einhverju til að hnupla.

Eftir nokkra stund hafi maðurinn lagt dagblöðin á teppi þeirra og skömmu síðar hafi hann tekið þau upp aftur sem og farsíma sem var undir þaim. „Við náðum honum fljótt og rifum hann niður í grasið. Hann gerði sér fljótt grein fyrir að það þýddi ekkert að streitast á móti.“

Lögreglumaður á vakt var svo fljótur á vettvang og var farið með manninn niður á lögreglustöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×