Körfubolti

Bikardrottningin og bikarkóngurinn draga í Maltbikarnum | Fylgist með hverjir mætast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett
Tveir sigursælustu leikmennirnir í sögu bikarkeppni KKÍ, þau Anna María Sveinsdóttir og Teitur Örlygsson, munu sjá um að draga í undanúrslitin hjá körlum og konum en dregið verður klukkan 13.00.

Alls unnu þau Anna María Sveinsdóttir og Teitur Örlygsson sautján bikarmeistaratitla saman sem leikmenn og Teitur hefur síðan bætt við tveimur bikarmeistaratitlum sem þjálfari. Þau hafa því í sameiningu komið að nítján bikarmeistaratitlum.

Anna María Sveinsdóttir varð tíu sinnum bikarmeistari sem leikmaður Keflavíkur frá 1988 til 2004 þar af einu sinni sem spilandi þjálfari (1998).

Teitur Örlygsson varð sjö sinnum bikarmeistari sem leikmaður Njarðvíkur frá 1987 til 2002 en hann gerði einnig Stjörnuna tvisvar sinnum að bikarmeisturum eða árin 2009 og 2013.

Það hefur enginn leikmaður skorað fleiri stig í bikarúrslitaleik en þau Anna María Sveinsdóttir og Teitur Örlygsson.

Anna María skoraði á sínum tíma 201 stig í 13 leikjum með Keflavík eða 15,5 stig að meðaltali í leik. Mest skoraði hún 24 stig í bikarúrslitaleiknum 1992.

Teitur skoraði á sínum tíma 199 stig í 10 leikjum eða 19,9 stig að meðaltali í leik. Mest skoraði hann 38 stig í bikarúrslitaleiknum 1994.



Í pottinum hjá körlunum eru liðin KR, Grindavík, Þór Þórlákshöfn og Valur.

Í pottinum hjá konunum eru liðin Keflavík, Snæfell, Skallagrímur og Haukar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×