Lífið

Biggi Lögga segir mikið gert úr brjóstasýningunni á B5

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, segist misskilinn.
Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, segist misskilinn.
Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, segir að mikið hafi verið gert úr því þegar Jónína Birgisdóttir sýndi honum brjóstin á skemmtistaðnum B5 um helgina. Jónína var þannig að gagnrýna Birgi fyrir skrif hans um Free the nipple byltinguna í síðustu viku. Birgir segir að skrif sín hafi verið misskilin.

„Þetta var nú ekki eins mikið og sagt hefur verið. Hún rétt togaði bara bolinn niður," útskýrir lögreglumaðurinn þekkti. Hann segir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem vakti athygli á málinu á Twitter, hafa sagt við sig að hann myndi vonandi endurskoða afstöðu sína í kjölfarið á þessu. „Ég veit ekki hvaða afstöðu samt. Ég hristi bara hausinn og sagði að hún væri gjörsamlega að misskilja mig. Ég skil alveg út á hvað Free the nipple gengur, eina sem ég setti út á var aðferðafræðina," segir Birgir.

Sjá einnig:Beraði brjóstin á b5: Biggi lögga gekk „vandræðalegur“ í burtu

Jónína sagði í samtali við Vísi í morgun að Birgir hafi gengið vandræðalegur í burtu. „Mér fannst þetta bara pínu fyndið," segir Birgir á móti og bætir við: „Ég tek þessu allavega ekkert nærri mér." Jónína segir að hún hafi ákveðið að ganga alla leið og sýna honum brjóst sín eftir að hann hafi hrist hausinn.

„Við byrjuðum eitthvað að grínast í honum og þykjast ætla að rífa niður bolinn,“ segir Jónína sem gekk skrefinu lengra. „Hann hristir eitthvað hausinn. Þá ákvað ég að fara alla leið með þetta.“

Aðspurð um viðbrögðin segir Jónína að ekki margir hafi séð þetta enda hafi hún aðeins berað brjóstin í örskamma stund.

„Stelpurnar í kring voru náttúrulega mjög ánægðar,“ segir Jónína. Biggi hafi hins vegar gengið „eitthvað vandræðalegur“ í burtu.

„Ok, kannski er ég bara ógeðslega gamaldags en ég skil ekki alveg þetta „free the nipple“ dæmi. Ég veit vel að hugsunin er að mótmæla kúgun kvenna og því að bannað sé á mörgum stöðum í hinu vestræna samfélagi að bera á sér brjóstin, jafnvel þó það sé til að gefa börnum brjóst. Sú hugsun er að sjálfsögðu mjög góð. Ég er bara alls ekki svo viss um að sú aðferð að bera á sér brjóstin á öllum samfélagsmiðlum og á götum úti sé eitthvað að hjálpa þessum göfuga málsstað,“ er meðal þess sem Birgir skrifaði á Facebook-síðu sína, en þar tæklar hann gjarnan heitustu mál samtímans.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×