Innlent

Bíður í fjóra mánuði eftir að hitta geðlækninn

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Verkfall á geðsviði Landspítalans þýðir skerta þjónustu við viðkvæman hóp, segir María Einisdóttir framkvæmdastjóri geðsviðs spítalans. Um eitthundrað viðtölum við geðlækna í dag og á morgun hefur verið aflýst á spítalanum vegna verkfallsins. Álag jókst á bráðaþjónustu eftir síðustu verkfallshrinu á geðdeildinni.

Á miðnætti hófst tveggja sólarhringa verkfall lækna á geðsviði og skurðlækningasviði Landspítala. Ómar Kristjánsson sem stríðir við erfiðan geðsjúkdóm, missti af læknaviðtalinu sínu vegna verkfallsins og þarf að bíða í fjóra mánuði eftir að hitta lækninn sinn. Hann sagðist, í viðtali við Stöð 2, örugglega eiga eftir að leita á bráðaþjónustuna á þessum tíma. Hann gæti orðið mjög veikur, þótt hann væri í lagi núna.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Geðhjálpar benti á í viðtali við Stöð 2 að gengið hefði verið hart fram í niðurskurði á geðdeildinni. Sautján prósent niðurskurðarkrafa hafi verið gerð til geðdeildarinnar á síðustu fjórum árum. Á sama tíma hafi þörfin aukist um 20 prósent. Verkfallið og afleiðingar þess komi síðan ofan á þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×