Viðskipti erlent

Biður Grikki um að segja nei við "kúgunum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Jean-Claude Juncker segir að staða Grikkja yrði töluvert verri ef þeir segi nei.
Jean-Claude Juncker segir að staða Grikkja yrði töluvert verri ef þeir segi nei. Vísir/EPA
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, biður þjóð sína um að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verður þar í landi á sunnudaginn. Í sjónvarpsávarpi í dag sagði hann að vera Grikklands í Evrópusambandinu væri ekki í húfi og bað hann kjósendur um að hlusta ekki á hræðsluáróður.

Grikkir munu kjósa um aðstoðartilboð frá kröfuhöfum þeirra á sunnudaginn. Tilboðið felur í sér að Grikkir þurfi að draga verulega úr kostnaði ríkisins, hækka skatta og draga úr lífeyri.

Leiðtogar ESB segja að neitun gæti mögulega þýtt úrgöngu Grikkja úr evrusamstarfinu. Yfirvöld í Grikklandi virðast hins vegar telja að neitun myndi styrkja stöðu þeirra í áframhaldandi viðræðum vegna skuldavanda Grikklands.

Jean-Claude Juncker segir að staða Grikkja yrði töluvert verri ef þeir segi nei. „Jafnvel þótt þeir segi já eru mjög erfiðar viðræður framundan.“ Jerosen Dijsselbloem, formaður evrusamstarfsins, segir að Grikkir hafi valið áhættusama leið, sama hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fer.

Dagblaðið Ethnos birti í dag skoðanakönnun þar sem fram koma að 44,8 prósent ætla að segja já og 43,4 prósent ætla að segja nei.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×