Innlent

Biður Færeyinga afsökunar og vill að Egill Helga bjargi málunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Andri Freyr ásamt Dabba Magg hljóðmanni í Færeyjum. Eiður Svanberg og Egill Helga til hægri.
Andri Freyr ásamt Dabba Magg hljóðmanni í Færeyjum. Eiður Svanberg og Egill Helga til hægri.
Eiður Svanberg Guðnason verður seint talinn til aðdáenda sjónvarps- og útvarpsmannsins Andra Freys Viðarssonar. Færeyjarflandur Andra Freys fær á baukinn í nýjasta pistli sendiherrans fyrrverandi. Eiður var á sínum tíma aðalræðismaður Íslands í Þórshöfn og þekkir því vel til í Færeyjum. Ætti því ekki að koma á óvart að Eiður hefur skoðun á ferðalagi Andra Freys. Lokaþátturinn var á dagskrá RÚV í gær.

„Lokið er afar misheppnuðum Andraflandursþáttum um Færeyjar. Lokaþátturinn snerist mikið um að staupa sig. Kjánalegt var að heyra verslun Andreasar í Vágsbotni kallaða Andr. og okkur sagt að hún bæri eiginlega nafn umsjónarmanns Flandursins!!!“ segir í pistli Eiðs. Hann bendir á að skiltið á umræddu húsi verslunarinnar, sem á standi Andr., sé skammstöfun.

„Umsjónarmaður hefur ef til vill ekki skilið það. Kappróðurinn á Ólafsvöku var kallaður árabátakeppni og talað var um Ólaf Noregskonung. Hvaða Ólaf? Góður þulur hefur fengið vondan texta til að flytja okkur í þessum þáttum.“

Vill Egil Helga í fótspor Andra í Færeyjum

Eiður segist ekki ætla að hafa um þáttinn fleiri orð „en biður færeyska vini sína afsökunar á þessu sjónvarpsefni,sem ekki gerði mannlífi og menningu í Færeyjum nein skil svo sem verðugt væri.“

Þá spyr Eiður hve miklum fjármunum hafi verið varið í þættina og setur í samhengi við að fram hafi komið á dögunum að þættirnir Óskalög þjóðarinnar hafi kostað RÚV um 35 milljónir króna.

Eiður, eða Molaskrifari eins og hann titlar sjálfan sig í pistlum sínum, slær því upp að þátturinn hljóti að hafa verið keyptur óséður. Vonast hann til þess að Egill Helgason verði gerður út af örkunni og geri nýja þáttaröð sem meira vit verði í. Egill fór einmitt á vit ævintýranna í Kanada og gerði sjónvarpsþáttaröð líkt og Andri Freyr hafði áður gert. „Egill apar eftir Andra á flandri“ var fyrirsögn á frétt Nútímans þar sem bent var á hve líkir þættirnir væru að frátöldum þáttarstjórnendunum.

Spannst mikil umræða um þættina í kjölfarið þar sem sjónvarpsmaðurinn Helgi Seljan hélt uppi vörnum fyrir Andra. Það var því óvænt útspil á dögunum þegar Eiður hrósaði Helga fyrir frammistöðu sína í Kastljósi þegar fjallað var um Vegagerðina.

„Furðu lostinn fylgdist Molaskrifari með úttekt Helga Seljans og starfsfélaga hans í Kastljósi í gærkvöldi (16.12.2014) á vafasömum (að ekki sé meira sagt) viðskiptaháttum, sem viðgengist hafa hjá Vegagerðinni. Þetta var Kastljós eins og það á að vera. Takk og hrós“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×