Körfubolti

Biðu í 16 ár á milli sigra en unnu svo tvo í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gorgui Dieng sækir að körfunni.
Gorgui Dieng sækir að körfunni. vísir/getty
Spánn er efst í A-riðli heimsmeistarakeppninnar í körfubolta með sex stig eftir þriðja sigurinn í jafnmörgum leikjum í kvöld.

Spánn rúllaði yfir sterkt lið Brasilíu, 82-63, en Brassar voru búnir að vinna sterkan sigur á Frakklandi og valta yfir Íran.

Pau Gasol, tvöfaldur NBA-meistari með LA Lakers, var öflugur fyrir Spán og skoraði 26 stig og tók níu fráköst. LeandrinhoBarbosa, leikmaður Phoenix Suns, var stigahæstur Brasilíumanna með ellefu stig.

Í sama riðli vann Frakkland stórsigur á Egyptum, 94-55, og Serbar völtuðu yfir Íran, 83-70. Frakkland, Brasilía og Serbía eru öll með fimm stig.

Senegal hafði ekki unnið leik á HM í 16 ár þar til það lagði Púertó Ríkó nokkuð óvænt í gær, 82-75. Senegalar þurftu ekki að bíða jafnlengi eftir næsta sigri því þeir unnu aftur í kvöld.

Senegal vann jafnvel enn óvæntari sigur á firnasterku liði Króatíu, 77-75, en Króatía var búið að leggja bæði Púertó Ríkó og Argentínu að velli í fyrstu tveimur umferðunum.

Gorgui Dieng, leikmaður Minnesota Timberwolves, skoraði 27 stig og tók átta fráköst fyrir Senegal, en Dario Saric sem Orlando Magic valdi tólfta í nýliðavalinu í ár skoraði 15 stig fyrir Króata.

Argentína vann Filipseyjar í skemmtilegum leik, 85-81, þar sem Luis Scola var stigahæstur með 1 stig og þá vann Grikkland sigur á Púertó Ríó, 90-79.

Grikkir eru efstir með fullt hús eða sex stig í b-riðli og þar á eftir koma Króatar, Senegalar og Argentínumenn með fimm stig.

Króatía-Senegal Argentína-Filipseyjar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×