Erlent

Biðja Trump um að gleyma ekki Krímskaga og Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands.
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands. Vísir/AFP
Þjóðverjar styðja aukin samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. Hins vegar segir Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýsklands, að Donald Trump, verðandi forseti, megi ekki gleyma aðgerðum Rússlands á Krímskaga og í Aleppo í Sýrlandi, þegar hann ræðir við Vladimir Putin, forseta Rússlands.

Þá sagði hún í dag að Atlantshafsbandalagið væri „dautt“ ef aðildarríki þess neitaði að koma öðru til aðstoðar ef ráðist yrði á það.

Á meðan á kosningabaráttunni stóð vestanhafs hefur Trump ítrekað hrósað Putin og velt því upp hvort að Bandaríkin ættu að verja aðildarríki NATO sem greiði ekki, að hans mati, sinn skerf til bandalagsins.

„Það er gott að nýi forsetinn ætli sér að ræða við forseta Rússlands og við styðjum það heilshugar,“ er haft eftir von der Leyen á vef Reuters. Auk Krímskaga og Aleppo nefndi hún einnig aðgerðir Rússa í Úkraínu.

Samkvæmt Reuters hefur kosning Trump verið reiðislag fyrir yfirvöld í Þýskalandi sem hafa hvað helst barist fyrir viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi vegna aðgerða þeirra í Úkraínu.

Rússar vonast til þess að með tilkomu Trump verði þvingununum aflétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×