Viðskipti innlent

Betri afkoma Icelandair Group

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Aukinn ferðamannastraumur og lægra olíuverð skilar Icelandair Group betri afkomu.
Aukinn ferðamannastraumur og lægra olíuverð skilar Icelandair Group betri afkomu. vísir/vilhelm
Búist er við því að rekstrarhagnaður (EBITDA) Icelandair Group fyrir árið 2015 verði á bilinu 2,7 milljörðum til 3,3 milljörðum meiri en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi árs.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu Icelandair vegna annars fjórðungs. Rekstrarhagnaður félagsins á öðrum fjórðungi var 50,3 milljónir dala (6,7 milljarðar króna) og jókst um 5 milljónir dala frá öðrum fjórðungi í fyrra.

„Helsta skýringin á góðu gengi félagsins er arðbær innri vöxtur í millilandastarfsemi félagsins. Framboð í millilandafluginu var aukið um 15 prósent á fjórðungnum samanborið við síðasta ár og á sama tíma fjölgaði farþegum um 17 prósent,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í afkomutilkynningunni.

Björgólfur segir að sætanýting hafi verið um 81,8 prósent og aukist um 1,8 prósentustig á milli ára.

„Þá hefur lækkun eldsneytisverðs á milli ára jákvæð áhrif á afkomuna. Rekstur annarrar starfsemi félagsins gekk einnig vel á fjórðungnum,“ segir forstjóri Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×