Körfubolti

Bestu viðbrögðin við því þegar Giannis blokkaði Westbrook | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo og Russell Westbrook.
Giannis Antetokounmpo og Russell Westbrook. Vísir/AP
Grikkinn Giannis Antetokounmpo er á hraðri leið með að komast í hóp stærstu stjarna NBA-deildarinnar í körfubolta.

Antetokounmpo hefur átt frábært tímabil með Milwaukee Bucks og það voru margir að fylgjast með því í nótt þegar hann fékk að reyna sig á móti hinum magnaða Russell Westbrook.

Russell Westbrook hefur átt sviðsljósið á þessu tímabili enda með þrennu að meðaltali í leik og hann hélt að hann væri að bæta við tveimur öruggum stigum í einu hraðaupphlaupinu í nótt.

Giannis Antetokounmpo var aftur á móti ekki sammála, hljóp hann uppi með sínum löngu stóru skrefum og blokkaði Russell glæsilega.

Bestu viðbrögðin við þessu varða skoti Giannis Antetokounmpo átti örugglega ungur strákur sem var mættur í BMO Harris Bradley Center í Milwaukee í gær.

Strákurinn mætti stoltur til leiks í búningi Russell Westbrook en eftir þetta varða skot þá klæddi hann sig í Giannis Antetokounmpo treyju eins og sjá má hér fyrir neðan.

Russell Westbrook verður örugglega í sérflokki næstu árin enda bara 28 ára en Antetokounmpo er sex árum yngri og verður betri og betri með hverju tímabili. Það væri því ekkert slæm ákvörðun að fara að halda upp á Giannis í dag.

Giannis Antetokounmpo og félagar fögnuðu á endanum fjögurra stiga sigri en Grikkinn var með 26 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum.

Russell Westbrook endaði leikinn með 30 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar og var því undir meðaltalinu sínu í öllum þremur tölfræðiþáttunum.

Hér fyrir neðan má sjá blokkið og svo viðbrögð stráksins.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×