Körfubolti

Besti fljúgandi refurinn í Hólminn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ayren Ellenberg er á leiðinni á klann.
Ayren Ellenberg er á leiðinni á klann. mynd/oklahoma
Íslandsmeistarar Snæfells eru búnir að finna sér nýjan bandarískan leikmann en Taylor Brown, sem hóf tímabilið í Hólminum, var látin fara í síðustu viku.

Fram kemur í fréttatilkynningu Snæfells að félagið er búið að semja við bakvörðinn Aaryn Ellenberg. Þetta er 170 cm hár leikmaður sem lék í fjögur ár með háskólaliði Oklahoma.

Hún skoraði 19 stig að meðaltali í leik á lokaárinu með Oklahoma auk þess sem hún tók 4,1 frákast. Ellenberg var ekki valin í nýliðavalinu í WNBA-deildinni en fékk síðar samning hjá Chicago Sky. Hún spilaði tvo leiki fyrir liði.

Frá Bandaríkjunum fór Ellenberg til Póllands þar sem hún spilaði með Basket Koning. Þar skoraði hún 14,7 stig að meðtali í leik og tók 4,5 fráköst. Á síðustu leiktíð spilaði Ellenberg með Flying Foxes í Austurríki þar sem hún skoraði 20,2 stig og tók 5,4 fráköst að meðaltali í leik.

Eftir tímabilið með Fljúgandi refunum var hún valin besti leikmaður tímabilsins á vefsíðunni Eurobasket.com

Snæfell er í öðru sæti Dominos-deildarinnar með átta stig eftir sex umferðir en liðið tapaði fyrir botnliði Grindavíkur í gær í framlengdum leik án Kana.

Ellenberg verður mætt fyrir stórleik Snæfells og toppliðs Keflavíkur næstkomandi miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×