Menning

Besta leikhúsið í Noregi þykir íslenskt

Jakob Bjarnar og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Mikael Torfason og Þorleifur Örn Arnarsson.
Mikael Torfason og Þorleifur Örn Arnarsson. Vísir/Ernir/Arnþór
„Þetta er auðvitað alveg frábært,“ segir Mikael Torfason rithöfundur en í kvöld unnu þeir Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri til verðlauna fyrir bestu leikhúsupplifunina að mati lesenda Natt og dag menningartímaritsins í Noregi. Um eitt helsta menningarrit Norðmanna er að ræða og að vonum mikill heiður fyrir þá félaga. 

Þeir Þorleifur og Mikael, sem líkast til eru þekktastir fyrir að hafa saman skrifað Njálu, rómaða sýningu Borgarleikhússins, réðust í það verkefni síðastliðið haust að endurskrifa sjálfan Henrik Ibsen, þjóðskáld Norðmanna og hrærðu saman Villiöndinni og Fjandmanni fólksins í sýningu sem þeir kölluðu Enemy of the Duck. Sú sýning var leikin fyrir fullu húsi og afar góðum viðtökum gagnrýnenda í norska þjóðleikhúsinu í allan vetur.

Óðs manns æði að takast á við Ibsen á þessum vettvangi

Í viðtali við Vísi síðastliðið vor viðurkenndi leikstjórinn, Þorleifur Örn, að auðvitað væri það óðs manns æði að vaða inní hin helgu vé á skítugum skónum og gera íslenska útgáfu af Ibsen fyrir Norðmenn.

„Jú, auðvitað er það svo, en eins og konan mín segir; ég er svo guðdómlega ójarðtengdur. Þannig að, þeim mun brjálæðislegra sem verkefnið er, þeim mun meira spennandi finnst mér það,“ sagði Þorleifur þá og Mikael tekur undir það; segja má að þetta hafi borgað sig að tefla á tæpt vað því Norðmenn tóku sýningunni fagnandi.

Fleiri Íslendingar komu að sýningunni. Sunneva Ása Weisshappel sá um búninga en hún vann einmitt til Grímuverðlauna í fyrra fyrir búningana í Njálu. Þá sá Bjarni Frímann Bjarnason um tónlistina í Enemy of the Duck og Vytautas Narbutas um leikmynd en hann hefur starfað mikið í íslensku leikhúsi og erlendu á síðustu árum.

Ibsen var erfiður viðfangs

En hvað segir leikskáldið og rithöfundurinn Mikael, er þetta ekki til marks um töluverðan hroka að endurskrifa Ibsen og setja upp í þjóðleikhúsi Norðmanna?

„Þetta er náttúrulega hugmynd frá Þorleifi. Ég er ekki svona fífldjarfur. Eða jú, ég sagði reyndar já við þessu og að púsla þessum tveim verkum saman og endurskrifa var kannski eins og tefla við stórmeistara. Oft sá Ibsen við hverjum einasta leik og því var þetta miklu meira mál kannski en ég í bjartsýni minni bjóst við í fyrstu. En það er voða gaman að þetta hafi fallið svona vel í kramið hjá Norðmönnum. Enda sýndum við þessu verkefni ekki hroka heldur auðmýkt,“ segir Mikael.

Rannsóknarskýrslan næsta verkefni

Þorleifur Örn, sem þrátt fyrir ungan aldur nýtur viðurkenningar sem frumlegur leikstjóri á alþjóðavettvangi, fékk þetta verkefni sem var að opna Ibsen-hátíð norska þjóðleikhússins árið 2017.

Uppfærslan var stór, kostnaður við hana fór vel yfir 100 milljónir króna. Þetta var stærsta sýning ársins í Noregi. Opnun á leikárinu. Óhætt er að segja að íslensku leikhúsi öllu sé sýndur mikill heiður en Þorleifur Örn er þessa dagana staddur í Þýskalandi þar sem hann er við æfingar á Hamlet.

Næsta samstarfsverkefni Mikaels og Þorleifs er í Borgarleikhúsinu í haust en það verk segja þeir vera beint framhald af Njálu; nýtt leikrit skrifað upp úr Rannsóknarskýrslu alþingis sem kom út í níu bindum í apríl 2010.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×