Lífið

Bertha á forsíðu Playboy á undan Ásdísi

Bertha María Waagfjörð gerði garðinn frægan í fyrirsætuheiminum og var á forsíðu þýska Playboy árið 1992.
Bertha María Waagfjörð gerði garðinn frægan í fyrirsætuheiminum og var á forsíðu þýska Playboy árið 1992.

„Já, já, jú það var ég," segir Bertha María Waagfjörð, fyrrum fyrirsæta og sú sem fyrst íslenskra kvenna var á forsíðu þýska Playboy árið 1992.

Bertha María var fyrir tilviljun stödd í stuttri heimsókn hér á landi þegar Fréttablaðið náði af henni tali í gær. Fyrirsætan Ásdís Rán sagðist í viðtali við Fréttablaðið fyrr í vikunni vera fyrst íslenskra kvenna til að komast á forsíðu karlaritsins. Það reyndist ekki vera rétt en Bertha var á forsíðu þýska Playboy fyrir 18 árum.

„Ég var 22 ára gömul og að vinna sem fyrirsæta í Ameríku," segir Bertha en þekktur ljósmyndari fékk hana til að gera þessa myndatöku með sér. „Ég var náttúrlega bara í hátískunni á þessum tíma. Sat fyrir í ítalska Vogue og fleiri álíka blöðum, en ég treysti honum nógu vel til að gera þetta flott. Þetta var í fyrsta sinn sem ég var svona ber fyrir framan myndavélina og myndatakan var frekar „artí"," segir Bertha María sem hefur sagt skilið við fyrirsætuferilinn enda þriggja barna móðir og búsett í Los Angeles.

Í kjölfarið á myndatökunni fyrir þýska Playboy fékk Bertha tilboð frá ameríska Playboy, sem vildu ólmir fá hana á forsíðuna en hún afþakkaði. „Ég vildi það alls ekki enda það blað allt öðruvísi en þessar myndir sem við tókum í New York." Leiðir Berthu Maríu lágu til Los Angeles þar sem hún lék meðal annars í einum af vinsælustu gamanþáttum síðari tíma, Seinfeld.

Ásdís Rán leiðrétti misskilninginn í gær, dró til baka fyrri yfirlýsingu og bað Berthu Maríu afsökunar. Sagðist hún ekki hafa vitað um forsíðumyndir hennar í Playboy og bætti við að Bertha væri svakalega flott fyrirsæta og uppáhaldsfyrirsætan hennar á sínum tíma. - áp










Tengdar fréttir

Ásdís Rán í Playboy: Tugir eintaka seld í forsölu

Búið er að selja á milli 50 og 60 búlgörsk Playboy-tímarit í forsölu hjá Eymundsson en ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir mun prýða forsíðu þess. Áhuginn virðist ætla að verða gríðarlegur samkvæmt upplýsingum frá Eymundsson sem selur tímaritin á vefsíðu sinni, eymundsson.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×