Innlent

Berst gegn kynbundnu ofbeldi í flóttamannabúðum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Útskriftarhópurinn flutti tónlistaratriði í tilefni af útskriftinni.
Útskriftarhópurinn flutti tónlistaratriði í tilefni af útskriftinni. Mynd/Golli
Tíu manns útskrifuðust úr Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á miðvikudaginn.

Útskriftarhópurinn er fjölbreyttur en í honum er fólk frá Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu.

Þetta er í sjöunda sinn sem skólinn útskrifar nemendur úr sex mánaða námi en frá upphafi hafa samtals 53 sérfræðingar frá þróunarlöndum útskrifast frá skólanum með þjálfun í jafnréttismálum.

Tony hefur starfað fyrir Flóttamannastofnun Sameinuðu ÞjóðannaMynd/Golli
Tony H. Bero, einn nemandi skólans, kemur frá Palestínu. Lokaverkefni hans fjallaði um kynbundið ofbeldi í flóttamannabúðum og hvernig mætti berjast gegn því. Hann hefur undanfarið unnið með flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNRWA.

„Verkefnið tekur fyrir sjö flóttamannabúðir á norðurhluta Vesturbakkans í Palestínu,“ sagði Tony. „Markmiðið með verkefninu er að útbúa ramma utan um hvernig megi berjast gegn kynbundnu ofbeldi í flóttamannabúðum. Þar legg ég til hvernig megi styrkja félagasamtök og þjálfa sjálfboðaliða,“ segir hann. Tony kemur til með að innleiða verkefnið sitt í Palestínu árin 2016 til 2018.

„Ég mun fara aftur til Palestínu og vinna með samtökunum mínum, UNRWA, við að finna fjármögnun fyrir verkefnið. Vonandi getum við hafið það á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×