Innlent

Berst áfram fyrir börnin

Ásta Gunnlaugsdóttir þarf að afhenda börn sín tvö til Bandaríkjanna samkvæmt dómi Hæstaréttar.
Ásta Gunnlaugsdóttir þarf að afhenda börn sín tvö til Bandaríkjanna samkvæmt dómi Hæstaréttar. Vísir/Stefán
„Ég ætla bara að berjast þangað til ég verð dregin út. Það er í raun og veru ekkert annað sem ég get gert. Ég er að reyna að komast frá þessum manni og ég ætla ekkert bara að gefast upp,“ segir Ásta Gunnlaugsdóttir, sem var í gær gert af Hæstarétti að afhenda börn sín tvö föður þeirra í Bandaríkjum.

Hæstiréttur sneri þar með við dómi Héraðsdóms Reykjaness sem áður hafði áður úrskurðað að það myndi stefna andlegri heilsu þeirra í hættu að vera tekin úr umsjá móður þeirra. Þarf Ásta að snúa aftur í fyrrverandi heimabæ sinn í Poulsbo, Washington, innan tveggja mánaða.

Dómur vegna barnakláms

Eiginmaður Ástu sem er Bandaríkjamaður og er 20 árum eldri en hún, hlaut dóm fyrir vörslu barnakláms hér á landi skömmu áður en þau kynntust árið 2006. Þá hafði hann búið hérlendis í tíu ár. Þau fluttu út til Bandaríkjanna 2007 þar sem Ásta varð fyrirvinna þeirra þrátt fyrir að vera ekki með atvinnuleyfi þar ytra þar til að þau stofnuðu ísverksmiðju árið 2010.

Hæstiréttur taldi að þar sem eiginmaður Ástu sagðist getað útvegað henni vinnuvísa í gegnum fyrirtæki þeirra, þar sem hún gæti unnið á meðan mál þeirra færi fyrir dóm, gæti hún snúið aftur til Bandaríkjanna.

„Eins og það sé einhver lausn á vandanum að ég þurfi að fara að vinna hjá manninum sem ég stend í forræðisdeilu við og hefur haldið mér í nokkurs konar ánauð í sjö ár. Ég verði aftur algjörlega upp á hann kominn. Mér finnst það ótrúlegt.“

Algjörlega einangruð

Ásta segir að hún og börnin sem eru tveggja og fjögurra ára gömul hafi búið við óviðunandi aðstæður og hún óttist nú um velferð þeirra. Þau hafi búið við bág kjör og afar slæman húsakost þar sem þau notuðust við eldivið til að kynda húsið. Hún hafi í raun ekki áttað sig á aðstæðunum sem hún var í fyrr en hún kom heim til Íslands í apríl síðastliðnum í von um að fá lán til að setja í rekstur fyrirtækisins. Þá hafi runnið upp fyrir henni ljós að hún hafði lifað við aðstæður sem væru með öllu óboðlegar.

„Ég var algjörlega einangruð og upp á hann komin. Hann skammtaði mér peningana og stjórnaði algjörlega við hvern ég talaði og hvað ég gerði. Ég sá um börnin, heimilið og bar þungann af rekstri og framleiðslu fyrirtækisins okkar. Það var mjög erfitt. Stundum var ég með annað barnið á bakinu og hitt framan á mér á meðan ég vann. Ég var hætt að hugsa um sjálfa mig og allt sem sneri að mér mætti afgangi þar sem ég þurfti að komast yfir svo margt. Ég var í rauninni eins og nokkurs konar þræll. Þegar ég kom heim og gat allt í einu hringt í vinkonur mínar og gert það sem mig langaði án þess að hann gæfi mér leyfi áttaði ég mig á því að ég gat ekki farið aftur út. Ég gat ekki boðið börnunum mínum upp á þetta.“

Börnin bera skaðann

Hún segir börnin sín hafa borið skaða af þessum aðstæðum þar sem velferð þeirra hafi alltaf lotið í lægra haldi fyrir hagsmunum fyrirtækisins. Stelpan, sem er fjögurra ára, hafi alist upp við mikla streitu og hafi ekki þroskast eðlilega. Hún segir stelpuna hafa tekið miklum framförum eftir að þau komu til Íslands þar sem hún er núna í leikskóla og fær stuðning.

„Það var ekki pláss í hennar lífi til þess að þroskast. Þau voru alltaf með mér í vinnunni og þurftu bara að hafa ofan af fyrir sér sjálf. Þriggja ára gat hún sagt þrjátíu orð. Það var alveg sama þótt þau væru veik eða sofnuð þegar honum datt í hug að það þyrfti að fara niður í verksmiðju að kvöldi til. Þá þurfti maður bara að vekja þau og taka þau með. Ég áttaði mig ekki á þessu þar sem maður hugsaði alltaf bara um næsta skref og svo næsta skref því ef maður leyfði sér að hugsa fram í tímann bugaðist maður.“

Ætlar ekki að gefast upp

Þegar Ásta er spurð hvernig henni líði eftir að Hæstiréttur kvað upp sinn dóm og henni var gert að fara út með börnin, segir hún að hún sé ekki farin að meðtaka niðurstöðuna eða átta sig á hvað tekur við.

„Ég skil ekki hvernig Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu og trúi ekki að mér sé gert að snúa aftur í þessar aðstæður með börnin. En ég ætla ekki að gefast upp og mun berjast áfram með það að leiðarljósi að búa börnum mínum gott líf þar sem þau finna fyrir öryggi og ást.“


Tengdar fréttir

Gert að senda börnin sín til Bandaríkjanna

Konan telur að það gæti skaðað andlega og líkamlega heilsu barnanna að senda þau til föður síns.Undir það tekur sálfræðingur sem leiddur var fyrir héraðsdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×