Innlent

Berlínarmúrinn áminning fyrir Reykvíkinga

Una Sighvatsdóttir skrifar
Broti úr Berlínarmúrnum var stillt upp við Höfða í dag þar sem margir telja að lok kalda stríðsins hafi átt upptök sín. 25 ár eru í dag frá sameiningu Þýskalands.

Sá hluti múrsins sem gefinn var Reykjavík stóð áður á Potsdamer Platz, þar sem múrinn opnaðist hvað fyrst í nóvember 1989 og Austur-Berlínarbúar streymdu í gegn til móts við frelsið. Þar er því eitt af áhrifaríkustu augnablikum mannkynssögunnar greypt í stein og táknrænt að hann standi við Höfða þar sem leiðtogafundurinn fór fram þremur árum áður.



Viðstaddir í dag voru einmitt sendiherrar Bandaríkjanna og Rússlands sem heilsuðust kumpánalega af þessu tilefni. Múrbrotið er hinsvegar er ekki aðeins sögulega táknrænt, heldur einnig áminning um þær áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir í dag að sögn Tim Renner, ráðuneytisstjóra menningar í Berlín.



„Um leið og við lítum þetta múrbrot vitum vð líka að það er verið að reisa aðra múra í dag," sagði Brenner í samtali við fréttastofu. „Því er tvennt sem við ættum að minnast þegar við göngum framhjá múrnum. Annars ættum við að fagna því að hann sé fallinn í Evrópu. En um leið ættum við líka virkilega að gæta þess að annað eins endurtaki sig aldrei. Við verðum að taka á móti flóttafólkinu okkar í dag, með sama hætti og við tókum á móti bræðrum okkar og systrum frá Austur-Þýskalandi."



Renner áréttaði sömuleiðis að múrbrotið, sem myndskreyttur er af götulistamanninum Jakob Wagner, sé til merkis um þær jákvæðu umbreytingar sem orðið hafi eftir að Berlín opnaðist. „Berlín var þjáð borg, klofin borg. En líttu á Berlín í dag. Nú er Berlín iðandi af lífi, alþjóðleg borg full af fólki alls staðar að. Þetta er borg fjölbreytileika, lista og menningar."





Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók í sama streng og sagði múrbrotið litríka vera góða áminningu fyrir Reykvíkinga.



„Það var hluti af því, þegar múrinn féll, að fólk í Ungverjalandi fór og klippti niður gaddavírinn sem skildi að landamæri Ungverjalands og Austurríkis. Þessa dagana er verið að setja þennan gaddavír upp aftur, en núna til að halda flóttamönnum undan," sagði Dagur.



„Við auðvitað upplifum okkur oft í fjarlægð frá atburðum heimsins og þeim flóttamannavanda sem Evrópa er að glíma við þessa stundina, en við erum það ekki. Og það að flytja hluta úr Berlínarmúrnum hingað yfir á örfáum dögum á bara að vera okkur til áminningar um þetta samhengi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×