Innlent

Berjast gegn kynferðisbrotum gegn börnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Þegar við förum að vanda okkur meira og ná árangri þá förum við að finna þessi mál fyrr,“ segir Geir Bjarnason forvarnarfulltrúi.
"Þegar við förum að vanda okkur meira og ná árangri þá förum við að finna þessi mál fyrr,“ segir Geir Bjarnason forvarnarfulltrúi. vísir/pjetur
Blátt áfram og Hafnarfjarðarbær hafa undanfarin fjögur ár unnið að því að auka forvarnir og vitund fólks á kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og unglingum. Rúmlega 700 starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar hafa sótt námskeið á þeirra vegum, en námskeiðið hefur meðal annars það að markmiði að gera starfsmenn hæfari í að greina einkenni kynferðislegs ofbeldis. Samstarfssamningur á milli bæjarins og Blátt áfram verður undirritaður í dag, fimmta árið í röð.

Forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar segir verkefnið hafa gengið einstaklega vel en nauðsynlegt sé að halda því áfram. Um langhlaup sé að ræða og mikilvægt sé að dýpka þekkingu foreldra og einstaklinga sem starfa með börnum og unglingum.

„Þegar við förum að vanda okkur meira og ná árangri þá förum við að finna þessi mál fyrr. Með þessu er hægt að koma í veg fyrir að þau verði eins erfið og þau kannski voru í gamla daga. Fagfólki er kennt að búa til öryggisnet í kringum börnin og tryggja að allir verkferlar séu eins skýrir og hægt er,“ segir Geir Bjarnason, forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar.

Íslenskar rannsóknir á verkefninu sýna að þekking og viðhorf þátttakenda á ýmsu er viðkemur kynferðislegu ofbeldi eykst og breytist í kjölfar þess að hafa hlotið þjálfun. Þátttakendur telja einnig líklegt að þeir muni í framtíðinni grípa til fleiri forvarnaraðgerða til verndar börnum gegn kynferðislegu ofbeldi en þeir gerðu áður.

Geir segir mikilvægt að opna umræðu um málið. „Tilkynningum hefur ekki fækkað, en það er ekkert endilega fylgni þarna á milli. Umræðan í þjóðfélaginu er það sem veldur því hvort mikið sé um tilkynningar eða ekki og erum því að vonast eftir opnari umræðu því við erum fyrst og fremst að hugsa um hag barnanna,“ segir Geir.

Hafnarfjarðarbær er eina sveitarfélagið sem stendur sem býður starfsfólki sínu upp á slík námskeið, því að kostnaðarlausu. Um 1800 manns starfa í bænum öllum. Fjölskylduþjónustan í Hafnarfirði leggur til félagsráðgjafana  til að kenna á námskeiðunum fyrir starfsmenn bæjarins. Samstarfssamningurinn verður endurnýjaður á Kaffi Pallettu klukkan þrjú í dag.

Gleðin var heldur betur við völd við undirritun samningsins í dag. -Uppfært klukkan 15.47
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×