Erlent

Berjast gegn kókaínsmygli með dínamíti

Samúel Karl Ólason skrifar
Dínamít er notað til að gera gíga á óskráðar flugrautir í Perú.
Dínamít er notað til að gera gíga á óskráðar flugrautir í Perú. Vísir/AP
Yfirvöld í Perú hafa sprengt gíga á 54 óskráðar flugbrautir í landinu með dínamíti. Markmiðið er að höggva skarð í aðgerðir kókaínframleiðenda og smyglara í landinu. Lögregla í landinu segir þó smyglara borga íbúum nærliggjandi þorpa allt að hundrað dali, eða um 12 þúsund krónur, fyrir að fylla upp í holurnar á flugbrautunum.

Vicente Romeru, yfirmaður eiturlyfjalögreglu Perú, sagði á blaðamannafundi að tvær brautir sem sprengdar hefðu verið nýlega, hafi þegar verið sprengdar fjórum sinnum á árinu og alltaf lagaðar jafnharðan. Jafnvel sé gert við þær samdægurs.

Að meðaltali fljúga fjórar til fimm flugvélar með ófullunnið kókaín frá Bólivíu til Perú á degi hverjum. Hver flugmaður fær allt frá tíu þúsund til tuttugu og fimm þúsund dali fyrir hvert flug.

AP hefur eftir Romero að þar sem ekkert radareftirlit sé með landamærum Perú og Bólivíu og flugherir þjóðanna séu takmarkaðir, sé eina leiðin til þess að ná vélunum, að ná þeim á jörðinni. Á þessu ári hafa fjórtán vélar verið stöðvaðar.

Um 450 tonn af kókaíni eru framleidd í Perú á ári hverju. Talið er að um helmingur þess sé fluttur til Bólivíu með litlum flugvélum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×