Lífið

Bergur Þór og Billy Elliot: Að koma út úr skápnum sem listamaður og lifa drauminn

Magnús Guðmundsson skrifar
Bergur Þór Ingólfsson
Bergur Þór Ingólfsson Visir/Valli
Bergur Þór Ingólfsson er fyrsti atvinnuleikarinn frá Grindavík, útskrifaður 1995 úr Leiklistarskólanum. Hann hefur á síðustu árum átt mikilli velgengni að fagna innan Borgarleikhússins. Bergur Þór er þessa dagana meira en lítið upptekinn við að setja upp Billy Elliot á Stóra sviði Borgarleikhússins og æfingar hafa staðið yfir í allt að níu mánuði. Nú þegar um vika er í frumsýningu er þegar uppselt á yfir tuttugu sýningar enda hafa uppfærslur Bergs notið mikilla vinsælda á síðustu árum.

Bergur Þór er kvæntur Evu Völu Guðjónsdóttur búningahönnuði og saman eiga þau dæturnar Urði, Áróru og Emilíu og fyrir átti Bergur dótturina Nínu Rún. Þær Urður, Emilía og Nína eru farnar að taka þátt í leiklistarlífinu svo það eru ófáar stundirnar sem fjölskyldan ver í þjónustu við listagyðjuna.

„Ég legg skrif mín gjarnan undir stelpurnar og þær eru ónískar á góðar hugmyndir. Undanfarið hefur það æxlast þannig að ég hef verið að leikstýra stórum sýningum og þessar stóru skepnur þarfnast mikillar viðveru – of mikillar. Ég hefði viljað eiga meiri tíma fyrir mig og fjölskylduna og vera betur á staðnum í hausnum þegar ég er heima. En það er erfitt að hætta að hugsa um þetta blessaða leikhús, það er einhvern veginn þannig vinna. Hugmyndir og lausnir þurfa að fá að malla og krauma og svo koma þær oft þegar maður á síst von á þeim – jafnvel í draumi.“



Billy Elliot segir sögu ellefu ára drengs á Englandi á tímum verkfalls kolanámumanna 1984-85 sem fyrir tilviljun fer að leggja stund á ballett og tekst á við fordóma og neikvæð viðhorf hins karllæga samfélags.

„Ég get alveg játað að það er ákveðin hliðstæða á milli sögunnar um Billy Elliot og sögu fyrsta atvinnuleikarans frá Grindavík,“ segir Bergur og brosir hlýlega. En Bergur sem hefur sérstaklega hlýja og þægilega nærveru heldur rólega áfram og það er aldrei langt í brosið og húmorinn.

Bergur Þór stillir sér upp eins og ungur Billy Elliot heima í Grindavík.
Ónytjungahopp og draumar

„Þegar ég var unglingur í Grindavík var talað um þetta sem ónytjungahopp og að listaspírur og svokallaðir háskólamenn væru afætur í þjóðfélaginu. En þótt þessi skoðun væri fyrirferðarmikil þá var hún samt alls ekki allra. Málið er að sumir virðast hreinlega ekki þola þetta og þá á ég við leikhús, listir og menningu en ég hef í sjálfu sér enga haldbæra skýringu á því hvað veldur. Þannig er það bara.

Fyrir mér var það sem gerðist í leikhúsinu í Reykjavík og í áramótaskaupinu eins og guðirnir á Ólympusfjalli, einhver fjarlægur og ósnertanlegur draumur. Þegar ég svo mörgum árum síðar lék í Fiðlaranum á þakinu og sat við hliðina á Sigga Sigurjóns þá þurfti ég að klípa mig til þess að fullvissa mig um að þetta væri ekki bara draumur. Mátti ég þetta? Er í lagi að ég sé hér? Þetta sótti að mér en það er svo óendanlega mikilvægt í mínum huga að list er hluti af öllu mannlífi og á að vera aðgengileg öllum.

Út úr skápnum sem listamaður

Ég á fjóra bræður og eina systur, er næstyngstur í þessum stóra hópi og kannski hef ég eitthvað þurft að hafa fyrir athyglinni. Þegar ég var strákur var ég alltaf eitthvað að „fíflast“ eins og sagt var við mig. En það fylgdi því líka að ég átti að gera mér grein fyrir því að ég gæti ekki haft atvinnu af þessum fíflalátum.

Þetta hefur fylgt mér og ég hef allan ferilinn verið að reyna að finna leyfið fyrir því að vera leikari. Heima í Grindavík var ég eins og skápahommi sem þurfti lífsnauðsynlega að komast út og fá að vera listamaður. Það er í mínu eðli og því verður ekki breytt. 

Ég fékk samt alltaf stuðning heima fyrir og þá sérstaklega frá mömmu og pabba. Við bræðurnir tölum kannski meira um Manchester United en listir en foreldrar okkar eru ákaflega hvetjandi og vilja okkur systkinunum alltaf allt það besta. Fyrirstaðan snerist því meira um það sem ég hafði heyrt í samfélaginu en ekki innan fjölskyldunnar. Þessi fyrirstaða myndar einhvers konar girðingu á milli lista og samfélags og ég stofnaði Grindvíska atvinnuleikhúsið á sínum tíma til þess að rífa niður þessa girðingu í mínum heimabæ með því að segja sögur að heiman og til þess að kallar eins og ég mættu vera kallar eins og ég.

Jón Páll Eyjólfsson, nú leikhússtjóri á Akureyri, og Bergur Þór á sviðinu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Allt í lagi að knúsast og opna sig

Ég byrjaði að leika í Leikfélagi Grindavíkur sem var virkt á þeim árum og svo var ég í leikfélaginu í framhaldsskólanum. Eftir leiklistarskólann var stofnaður ungmennahópur í Grindavík á vegum Jónu Kristínar Þorvaldsdóttur, sem þá var sóknarprestur, og móður drengs sem hafði fyrirfarið sér. Þær opnuðu félagsmiðstöð í yfirgefnu frystihúsi og ég var fenginn til þess að leikstýra krökkunum í tveimur sýningum og eiginkona mín, Eva Vala, tók að sér að sjá um leikmynd og búninga. 

Þetta er ein mín eftirminnilegasta leikhúsreynsla. Þarna voru krakkar sem fundu sig illa og það var fátt í boði sem hentaði þeim því þeir voru afhuga fótbolta og körfubolta. Sum þeirra eru nánir vinir mínir í dag og þrjú eða fjögur þeirra hafa sagt mér seinna meir að þetta hafi bjargað lífi þeirra. Að komast að því að það er allt í lagi að knúsast og opna sig og leyfa sér að taka pláss í heiminum og vera til. Það voru ekki margar sýningar á þessum uppfærslum en þær eru samt eitt af mínum allra stærstu afrekum.

Síðasta sumar setti Bergur upp söngleik í NY við góðan orðstír og stelpurnar komu og dvöldu með honum í Stóra eplinu.
Andlegt þrot og sigur á óttanum

Þegar ég horfi til baka þá sé ég að 2006 var árið sem allt breyttist. Þetta ár fór ég í andlegt þrot þar sem taugakerfið var komið á yfirsnúning. Ég held að margir lendi á vegg í lífi sínu á einhverjum tímapunkti. Í framhaldinu fór ég í andlega leit með það að markmiði að taka ábyrgð á sjálfum mér. Það sem varð mér til gæfu er að góður vinur minn sagði mér að Al-Anon væri rétti staðurinn fyrir mig og henti mér þangað inn á fund. Þar fann ég mig samstundis og stundaði fundi stíft samhliða því að fara í hugræna atferlismeðferð hjá frábærum þerapista.

Stóri sigurinn fólst í að komast yfir allan óttann og þessa miklu þóknunarþörf. Fyrir þetta hafði ég oft staðið á sviðinu og velt því fyrir mér hvað hver einn og einasti áhorfandi væri að hugsa um mig. Hvað viðkomandi fyndist um mig og svo framvegis. Áhorfendur finna fyrir þessu hjá leikara og þess vegna er þetta mikil fagleg fötlun. Til þess að komast yfir þetta þurfti að eiga sér ákveðið uppgjör við sjálfan mig og ég þurfti að taka út mikinn þroska.



Að vinna með góðu fólki


Hluti af þessu ferli var að fara heim til Grindavíkur og stofna Atvinnuleikhús Grindavíkur, GRAL, með Evu Völu minni og kærum vinum. Þar set ég fyrst upp eins manns sýninguna Tuttugu og eins manns saknað og í framhaldinu barnasýninguna Horn á höfði sem við Guðmundur Brynjólfsson skrifuðum saman og sló svo rækilega í gegn. Um leið og viðsnúningurinn varð í einkalífinu öðlaðist ég meira traust og tækifærin í faginu fóru að hrynja í fangið á mér.

Ég setti upp Oz og svo kom Jesú litli og ég öðlaðist trú á sjálfum mér og það gerðu aðrir líka. Ég er svo heppinn að ég á gott með að vinna með fólki og það skiptir miklu máli í leikhúsinu því það er svo mikil samvinnulist. Upphafið var að vinna með þessu góða fólki í GRAL og svo kom allt þetta frábæra fólk sem kom að Jesú litla og seinna Hamlet litla. Halldóra Geirharðs, Kristjana Stefáns, Benni Erlings, Snorri Freyr og fleira gott fólk sem hefur verið ótrúlega gaman að vinna með. Þegar ég er búinn að klára Billy Elliot erum við Kristjana að fara að skrifa saman trúðaóperu og það verður enn eitt ævintýrið.

Jónína Rún Pétursdóttir, móðir Bergs, með öllum dætrunum hans á góðri stund heima í eldhúsinu hjá honum og Evu Völu.
Billy Elliot og mín Grindavík

Ég var kannski geimvera í Grindavík á sínum tíma en það gerir mig ekkert merkilegri en aðra. Það gerist bara. Billy Elliot er líka svona saga þar sem kolanámubærinn er kannski soldið sambærilegur við mína Grindavík.

En Billy er samt ekkert endilega saga um listamann, hún er miklu víðari en það, því hún er saga um hæfileika sem búa innra með okkur öllum. Saga um að einhver skuli veita þeim athygli og hlúa að þeim. Því þó svo Billy Elliot sé um dans þá er það ekki málið, heldur hver býr til farveg fyrir hæfileika og hlúir að þeim. Það er það sem mestu máli skiptir svo við fáum öll að blómstra á okkar eigin forsendum.

Að það sé fólk sem er tilbúið að rétta út hjálparhönd og að sá sem á þarf að halda sé fær um að þiggja þá hjálp er svo stórt. 

Þetta er það sem ég er svo oft að takast á við í mínum verkum. Billy Elliot, Hamlet litli, Jesú litli, Kenneth Máni – þessi strengur er alltaf þarna. Barátta okkar við að vakna inn í nýjan dag og það fylgir enginn leiðbeiningabæklingur. Þetta er það sem þekkist í mínum sýningum; þessi leit okkar að mannsæmandi lífi sem gengur aðeins með hjálp samfélagsins.

„Það er erfitt að hætta að hugsa um þetta blessaða leikhús, það er einhvern veginn þannig vinna.“ Segir Bergur Þór sem hefur verið vakandi og sofandi yfir Billy Elliot um langa hríð.Visir/Valli
Loksins í Stuðmönnum

Ég vil að leikhúsið sé m.a. að takast á við þetta. Að það sé að gefa okkur tækifæri til þess að spegla okkur þar sem er verið að hleypa okkur inn og gefa af sér. Sem leikhúsmaður hlýt ég að stefna að því að snerta líf áhorfandans og hafa áhrif. Það er svona sem ég vil að leikhúsið sér.

Ég sé mig líka alltaf meira sem leikhúsmann en leikara eða leikstjóra eða höfund o.s.frv. Ég vil vera í þessu öllu. Þegar ég var ungur þá dreymdi mig um að vera í Stuðmönnum og syngja og spila, dansa og leika og bara gera þetta allt og núna er ég að lifa þennan draum, gera þetta allt. Ég er í Stuðmönnum – loksins.“

Vísir/Valli
Bergur Þór um Billy Elliot:

„Billy Elliot er ekki pakkasýning heldur erum við að skapa þennan heim hérna í Borgarleikhúsinu eins og við gerðum í Mary Poppins. Þetta er búið að vera langt og strangt ferli og þá sérstaklega fyrir strákana sem komu til greina í Billy og stóðu sig allir frábærlega. Það eru um 40 börn í sýningunni og það er gaman að sjá allt þetta unga hæfileikafólk saman komið í þessari sýningu. Sem leikstjóra finnst mér óneitanlega erfitt að geta ekki verið í augnsambandi við hvern og einn sem er í sýningunni en ég reyni að sinna öllum og hvetja þau áfram. Það þurfa allir klapp og athygli og þau eiga það líka svo sannarlega skilið. Ég efast ekki um að fólk mun njóta þess að koma og sjá Billy Elliot og alla hina snillingana fara á kostum í Borgarleikhúsinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×