Lífið

Berglind leikur Önnu Björnsdóttur í Black Mass: „Einstakt tækifæri“

Birgir Olgeirsson skrifar
Berglind Jónsdóttir leikur Önnu Björnsdóttur í bandarísku kvikmyndinni Black Mass.
Berglind Jónsdóttir leikur Önnu Björnsdóttur í bandarísku kvikmyndinni Black Mass. Vísir/IMdB.com

„Þetta er alveg einstakt tækifæri, sérstaklega fyrir manneskju sem er svona nýbyrjuð,“ segir Berglind Jónsdóttir sem mun fara með hlutverk fegurðardrottningarinnar fyrrverandi Önnu Björnsdóttur í kvikmyndinni Black Mass.

Myndin fjallar um líf eins alræmdasta glæpamanns Bandaríkjanna, James WhiteyBulger. Sá er leikinn af JohnnyDepp en það var Anna Björnsdóttir sem kom ábendingu til bandarísku alríkislögreglunnar FBI sem leiddi til handtöku Bulgers árið 2011.

Bulger hafði þá verið á flótta undan bandarískum yfirvöldum í sextán ár en hann var nágranni Önnu í SantaMonica í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Samkvæmt fréttaflutningi bandaríska miðla af handtöku Bulgers árið 2011 þá hafði Anna séð mynd af Bulger á CNN-fréttastöðinni og kannaðist strax við kauða. Hafði hún í kjölfarið samband við FBI og hlaut að launum tvær milljónir dollara sem yfirvöld höfðu lofað fyrir upplýsingar sem leiddu til handtöku hans.

Sjá einnig:Berglind Jónsdóttir leikur Önnu Björnsdóttur í Johnny Depp mynd um James Bulger

Berglind hefur dvalið í Bandaríkjunum frá árinu 2010 þar sem hún ætlaði að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Hún hefur undanfarin þrjú ár verið í leiklistarskóla þar í landi.Vísir/IMDB.com

„Þetta er bara ein sena þar sem hún sér þetta í sjónvarpinu og hefur samband við yfirvöld í Bandaríkjunum. Þetta er lítið hlutverk en engu að síður veigamikið því það skiptir máli,“ segir Berglind sem segist vera svo heppin að hafa fengið að tala íslensku megnið af þessari senu.

„Og rétt í restina þá tala ég ensku,“ segir Berglind og tekur fram að hlutverkið sé ekki stórt. Hún er þó ekki eini Íslendingurinn sem leikur í þessari mynd því Magnús Björnsson fer með hlutverk Halldórs Guðmundssonar, eiginmanns Önnu.

„Ég held að þetta verði mjög góð mynd, mér sýnist það á öllu. Það er mikill heiður að fá að koma að þessu.“

Bulger réð lögum og lofum í borginni Boston áður en hann fór í felur árið 1994 eftir að hafa komist að því að yfirvöld ætluðu að ákæra hann fyrir morð á nítján manneskjum. Myndin var því alfarið tekin upp í Boston og var Berglind ferjuð þangað frá heimaborg sinni Atlanta.

Benedict CumberbatchVísir/getty

Þar dvaldist hún í þrjá daga á flottu hóteli og var í næsta herbergi við stórleikarann BenedictCumberbatch sem fer með hlutverk BillBulgers, bróður James Bulger. Berglind segist hafa náð að spjalla stuttlega við leikarann á meðan dvöl hennar stóð á hótelinu.



Bill
þessi var þingforseti Massachusetts-fylkis í átján ár, frá 1978 til 1996. Eftir að hann lét af því embætti tók hann við sem forseti Massachusetts-háskóla. Hann þurfti að segja af sér árið 2003 þegar hann neitaði að mæta fyrir þingnefnd þar sem átti að spyrja hann út í samskipti hans við bróður sinn sem var þá á flótta undan yfirvöldum.

En hvernig fékk Berglind þetta hlutverk?

Berglind ásamt leikaranum Billy Bob Thornton.Vísir/IMDB.com

„Þetta er búið að vera svolítið skemmtilegt,“ segir Berglind sem flutti til Bandaríkjanna árið 2010 og ætlaði að starfa sem hjúkrunarfræðingur líkt og hún gerði á Íslandi.

„Svo þurfti ég að bíða í heilt ár eftir að fá hjúkrunarleyfi þannig að ég fór að leika mér að vera statisti í myndum hérna. Svo vatt þetta upp á sig og ég fór í leiklistarskólann og er búin að vera síðustu þrjú ár að læra,“ segir Berglind sem var meðal annars statisti í myndum á borð við Dumb andDumberto og TheHungerGames: CatchingFire.

Hún fékk sér´umboðsmann og í kjölfarið landaði hún hlutverki sem sænskur embættismaður í kvikmyndinni TheGoodLie en aðalhlutverkið í þeirri mynd er í höndum ReeseWitherspoon.

„Í framhaldinu fór ég í prufu fyrir Black Mass og fékk hlutverkið,“ segir Berglind sem segir aldrei hægt að vita hvort svo litlar senur nái í lokaútgáfur mynda.

„Maður veit aldrei. Ég hef tekið þátt í ýmsu hérna sem hefur verið klippt út, en vona það besta.“

Hún segir einhverjar þreifingar í gangi með fleiri hlutverk. „Ég er í prufum stöðugt, það er alltaf eitthvað í gangi. Það gæti eitthvað farið að gerast.“

Black Mass verður frumsýnd í september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×