Fótbolti

Berglind fékk nýliðasturtuna í miðju viðtali | Sjáðu markið og hrekkinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Við vitum hvað við þurfum að laga til að taka næstu skref. Bæði við sem einstaklingar og liðið hvað við þurfum að gera til að vera klár í þetta Evrópumót.“

Þetta sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, í viðtali við Stöð 2 eftir 1-0 sigur stelpnanna okkar á Úsbekistan í lokaleik æfingamótsins í Kína.

Fanndís Friðriksdóttir skoraði eina mark leiksins en þetta var eini sigur Íslands á mótinu. Það var áður búið að gera jafntefli við Kína og tapa fyrir Danmörku.

„Við þurfum að hafa mikið fyrir hlutunum. Það er ljóst. En ef við gerum það og leggjum mikið inn á bankann getum við tekið ríkulega út. Það erum við meðvituð um,“ sagði Freyr og markaskorarinn Fanndís Friðriksdóttir var ánægð með dvölina í Kína.

„Það er gaman að fá að prófa eitthvað nýtt. Mér fannst við gera þetta ágætlega og úrslitin fín. Það var margt sem við náðum að skoða eins og nýja leikkerfið. Það var eitthvað sem við þurftum á að halda,“ sagði Fanndís sem skoraði tvö mörk á mótinu.

Berglind Hrund Jónasdóttir, markvörður Íslandsmeistara Stjörnunnar, spilaði sinn fyrsta landsleik í dag en hún hafði ansi lítið að gera í markinu.

„Þetta er svipað og er búið að vera hjá mér í Stjörnunni í sumar. Ég var mjög vel undirbúin fyrir svona leik,“ sagði Berglind en hún var varla búin að sleppa orðinu þegar Glódís Perla Viggósdóttir og Sandra María Jessen busuðu nýliðann með vatnsgusu í miðju viðtali.

„Viltu passa símann minn!“ hrópaði Berglind Hrund sem hafði nú bara gaman að þessu.

Í spilaranum hér að ofan má sjá markið hjá Fanndísi, viðtölin og hrekkinn eftir leikinn í dag.


Tengdar fréttir

Fanndís afgreiddi Úsbekana út í Kína

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann lokaleik sinn á Sincere Cup æfingamótinu í Kína og endar annaðhvort í öðru eða þriðja sæti á mótinu.

Freyr: Frábærir kaflar inn á milli hjá okkur á þessu móti

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var í viðtali á Youtube-síðu Knattspyrnusambands Íslands eftir 1-0 sigur íslenska liðsins á Úsbekistan í lokaleik sínum á Sincere Cup æfingamótinu í Kína í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×