Íslenski boltinn

Berglind Björg kvaddi með þrennu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind er næst markahæst í Pepsi-deildinni með 12 mörk.
Berglind er næst markahæst í Pepsi-deildinni með 12 mörk. vísir/stefán
Breiðablik vann sinn áttunda sigur í röð í Pepsi-deild kvenna þegar Kópavogsliðið bar sigurorð af KR, 0-3, í 12. umferð deildarinnar í kvöld.

Fyrir leikinn var KR eina liðið sem hafði tekið stig af Blikum en liðin gerðu 1-1 jafntefli í 3. umferðinni. KR-konum gekk ekki jafn vel í kvöld.

Aldís Kara Lúðvíksdóttir nýtti tækifærið í byrjunarliði Breiðabliks vel og kom liðinu yfir á 23. mínútu. Hún skoraði svo aftur á 60. mínútu og kom Blikum í 0-2. Það var svo varamaðurinn Hildur Sif Hauksdóttir sem kláraði dæmið endanlega með þriðja markinu á 88. mínútu.

Fleiri urðu mörkin ekki og Breiðablik fagnaði enn einum sigrinum í sumar. Liðið er enn með fjögurra stiga forskot á Stjörnuna á toppi deildarinnar en Garðabæjarliðið vann Selfoss 1-3 í kvöld.

KR er hins vegar í 8. sæti, fjórum stigum frá fallsæti.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir lék sinn síðasta leik með Fylki í bili þegar Árbæjarliðið tók á móti Val á Fylkisvelli í kvöld en hún er á leið til náms í Bandaríkjunum.

Það er óhætt að segja að Berglind hafi kvatt með stæl en hún gerði þrennu í 5-1 sigri Fylkis.

Staðan var markalaus í hálfleik en eftir 11 mínútna leik í seinni hálfleik var staðan orðin 3-0, Fylki í vil.

Mist Edvardsdóttir byrjaði á því að skora sjálfsmark á 48. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Andreea Laiu sitt fyrsta mark fyrir Fylki og kom liðinu í 2-0.

Berglind skoraði svo þriðja markið á 56. mínútu og bætti við tveimur mörkum áður en yfir lauk. Hún kveður því Pepsi-deildina í bili með 12 mörk í 12 leikjum en aðeins Fanndís Friðriksdóttir, fyrrverandi samherji Berglindar hjá Breiðabliki, hefur skorað meira í sumar.

Elín Metta Jensen skoraði síðasta mark leiksins fyrir Val, mínútu fyrir leikslok.

Fylki er í 7. sæti deildarinnar en liðinu hefur gengið vel að undanförnu eftir erfiða byrjun. Valskonur eru hins vegar í 4. sæti með 21 stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af úrslit.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×