Íslenski boltinn

Berglind Björg aftur í grænt: „Langar að vinna titla"

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind ásamt Eysteini Pétri Lárussyni, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Berglind ásamt Eysteini Pétri Lárussyni, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks. mynd/breiðablik
Landsliðskonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir er gengin í raðir Íslandsmeistara Breiðabliks frá Fylki. Hún skrifaði undir þriggja ára samning við Blika.

Berglind þekkir vel til í Kópavoginum en hún lék með áður með Blikum, fyrst á árunum 2007-10 og svo 2013-14.

Berglind fór til Fylkis fyrir síðasta tímabil og skoraði 12 mörk í 12 deildarleikjum fyrir Árbæjarliðið áður en hún hélt utan til náms í Florida State University.

Berglind skoraði fjögur mörk í fyrstu átta leikjum Fylkis í Pepsi-deildinni í sumar, auk fjögurra marka í tveimur bikarleikjum.

Gengi Fylkis hefur hins vegar ekki verið gott en liðið hefur aðeins unnið einn af átta leikjum sínum í Pepsi-deildinni.

„Aðalástæðan er að mig langar að vinna titla og Breiðablik er í toppbaráttu,“ sagði Berglind um vistaskiptin í samtali við Vísi nú rétt í þessu.

„Svo er Breiðablik í Evrópukeppni. Ég á mér stóra drauma, mig langar að halda mér í landsliðinu og komast svo í atvinnumennsku.“

Berglind segir að það hafi verið erfitt að yfirgefa Fylki, enda hafi henni liðið vel í Árbænum.

„Ég átti frábæran tíma í Fylki. Þetta er topp klúbbur og þarna er topp fólk og það er virkilega erfitt að fara frá þeim. En ég er að hugsa mig og mína framtíð og ég held að þetta sé rétta skrefið,“ sagði Berglind sem hefur leikið 15 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Breiðablik situr á toppi Pepsi-deildarinnar með 20 stig, einu stigi á undan Stjörnunni. Blikar mæta Val í stórleik á morgun þar sem Berglind gæti þreytt frumraun sína með Kópavogsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×