Enski boltinn

Berahino ósáttur: Spila aldrei aftur fyrir West Brom

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Saido Berahino, leikmaður WBA.
Saido Berahino, leikmaður WBA. Vísir/GEtty
Saido Berahino, leikmaður West Bromwich Albion, er heldur ósáttur með forráðamenn félagsins sem neituðu í dag tilboði frá Tottenham í Berahino.

Tjáði Berahino á Twitter-síðu sinni að hann myndi aldrei aftur leika fyrir klúbbinn.

Berahino sem er 22 árs framherji og hefur leikið allt frá ellefu ára aldri hjá West Brom hefur verið þrálátlega orðaður við Tottenham í sumar og fór hann sjálfur ekki í felur með áhuga sinn um að ganga til liðs við Lundúnarfélagið.

Var talið að Tottenham myndi ekki leggja fram annað tilboð eftir að hafa gengið frá kaupunum Son Heung-Min frá Bayer Leverkusen en félagið lagði fram lokatilboð í Berahino í dag sem WBA hafnaði.

Berahino var heldur ósáttur með það en hann skrifaði eftirfarandi á Twitter-síðu sína stuttu fyrir lok félagsskiptagluggans.

„Sorglegt að geta ekki sagt hvernig félagið hefur farið með mig en ég get opinberlega sagt að ég muni aldrei spila aftur fyrir félagið Jeremy Peace,“ sagði Berahino en Peace er eigandi WBA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×