Viðskipti innlent

Ber að taka fyrir hópmálssókn gegn Björgólfi Thor

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir.
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir. vísir/gva
Hæstiréttur hefur úrskurðað að Héraðsdómur Reykjavíkur beri að taka hópmálssókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni til meðferðar. Málinu var vísað frá héraðsdómi fyrr í sumar.

Málið var höfðað eftir að Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Samtök sparifjáreigenda og lífeyrissjóðurinn Stapi auglýstu eftir þátttakendum í hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni með heilsíðuauglýsingum í blöðum. Þeir sem stóðu að málinu voru hluthafar í Landsbankanum þegar hann féll í október 2008.

Málinu var fyrst vísað frá í mars á síðasta ári á þeim grundvelli að aðilar innan málsóknarfélagsins hafi fjárfest í hlutabréfunum á mismunandi tímum.

Hópnum var því skipt í þrennt eftir því hvenær var fjárfest í hlutabréfunum, en hópmálsókninni var sem áður segir vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í sumar.

Í úrskurðum Hæstaréttar segir meðal annars að með málatilbúnaði sínum hafi þeir sem standa að baki málsókninni leitt að því nægar líkur að félagsmennirnir hafi orðið fyrir fjártjóni verði komist að þeirri niðurstöðu að sú háttsemi Björgólfs Thórs sem um er deilt í málinu hafi verið ólögmæt.

Var því úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að leggja efnisdóm á málið en sjá má dóma Hæstaréttar í málinu hér, hér og hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×