Fótbolti

Benzema kominn með nóg af skiptingunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benzema ræðir við Benitez á hliðarlínunni.
Benzema ræðir við Benitez á hliðarlínunni. Vísir/Getty
Karim Benzema, framherji Real Madrid, segist vera óánægður með hversu oft honum er skipt af velli í leikjum liðsins.

Benzema hefur átta sinnum verið í byrjunarliði Madrídinga í ár, bæði í spænsku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu, en aðeins spilað allar 90 mínúturnar í tveimur þeirra.

Hann var tekinn af velli á 76. mínútu er Real gerði 1-1 jafntefli við Atletico Madrid í borgarslagnum um helgina. Benzema kom Real yfir snemma leiks en jöfnunarmark Atletico kom eftir að hann var tekinn af velli.

„Skiptingar eru ákveðnar af þjálfaranum. Ég er bara hér til að hjálpa liðsfélögum mínum,“ sagði Benzema í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn í gær.

„Það er rétt að ég er kominn með nóg af því að mér sé skipt af velli. En ég held ró minni og mun halda áfram að vinna að því að fá meira að spila.“

„Þetta var varnarsinnuð skipting [gegn Atletico]. Hann tók mig af velli til að ná ákveðnum úrslitum í leiknum,“ sagði Benzema en bætti við:

„Það er rétt að skiltið sýnir alltaf töluna níu. Spyrjið Benitez að því af hverju það er.“

Rafa Benitez, stjóri Real, var spurður um skiptinguna eftir leikinn en hann sagðist vilja fá meiri jafnvægi í liðið. „Benzema stóð sig vel en við þurftum að fríska upp á kantinn. Við komum meira jafnvægi á liðið en héldum samt okkar sóknarkrafti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×